Formenn SGS fjalla um alvarlega kjaradeilu sambandsins við sveitarfélögin og hugsanlegar verkfallsaðgerðir í haust

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hefur áður mótmælt harðlega þeirri gróflegu mismunun sem Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) ætlast til að sveitarfélögin sýni gagnvart sínu starfsfólki. Kjaradeila SGS og sveitarfélaganna er í hörðum hnút og var vísað til Ríkissáttasemjara vegna þess að Samninganefnd sveitarfélaganna krafðist þess að SGS félli frá fyrirliggjandi samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda og það yrði ekki rætt í kjaraviðræðunum.

Vegna þess hversu samningaviðræður við sveitarfélög og ríki hafa dregist náðist samkomulag, þ.e. við aðra samningsaðila en SGS, að starfsfólk með lausa kjarasamninga fengi eingreiðslu að upphæð 105.000 kr. sem greiðist út 1. ágúst sem innágreiðsla fyrir nýjan kjarasamning.

SÍS hefur ákveðið einhliða að félagsmenn í félögum innan SGS fái ekki þessa eingreiðslu, og hefur sent póst til allra sveitarfélaga þar sem þeim er beinlínis bannað að koma eins fram við alla sína starfsmenn. Hér er greinilega verið að reyna að kúga SGS til uppgjafar og ótrúlegt að sveitarfélögunum finnist það sæmandi að greiða ekki lægst launaða starfsfólkinu umrædda eingreiðslu líkt og öðrum.

Sambandið hefur borið það fyrir sig að eingreiðslan þurfi að tengjast tæknilegum atriðum um endurskoðun viðræðuáætlunar sem á sér enga lagastoð og er hreinn fyrirsláttur. Af sama meiði eru yfirlýsingar af hálfu SÍS um að það sé á einhvern hátt óheimilt að ræða stöðuna og deilumálin í fjölmiðlum. Það bendir til þess að þau vita að málatilbúnaður þeirra og rökstuðningur er afar veikur.

Næsti viðræðufundur í deilunni er boðaður hjá Ríkissáttasemjara 21. ágúst næstkomandi. Í ljósi þess og þeirra einstrengislegu fyrirmæla sem fram koma í pósti sambandsins hefur SGS boðað til sérstaks formannafundar á morgun, 8. ágúst til að ræða þessa alvarlegu stöðu og ákveða næstu skref. SGS krefst þess að störf og framlag okkar félagsmanna í þágu sveitarfélaganna um land allt verði virt og þeim ekki mismunað með þessum gróflega hætti. Haldi Samband íslenskra sveitarfélaga þessari afstöðu til streitu er hætta á að það þýði hörð átök. Formaður Framsýnar mun taka þátt í fundinum á morgun en afstaða félagsins er skýr, það á ekki að líða sveitarfélögunum það að mismuna starfsmönnum í launakjörum eftir félagsaðild.

 

Deila á