Síðustu 12 árin hefur það verið fastur viðburður í Laufásprestakalli að boða til messu á Þönglabakka í Þorgeirsfirði einu sinni á sumri. Það viðraði vel til messuhalds í veðurblíðunni í gær og margir lögðu leið sín í Þorgeirsfjörðinn, ýmist gangandi, hjólandi eða siglandi með Húna frá Akureyri og Grenivík.
Byggð í Fjörðum lagðist af árið 1944, var þá kirkjan tekin ofan og efniviður hennar nýttur til annara bygginga eins og títt var í þá daga þegar skortur var á byggingarefni.
Þrátt fyrir að kirkjan sé ekki lengur til staðar á Þönglabakka er helgihaldið ekki vandamál. Messan fór fram undir berum himni, altaristaflan undurfögur náttúran sem bjó sig upp á og skartaði sínu fegursta í tilefni dagsins, en kirkjugestir létu fara vel um sig í grösugum kirkjugarðinum og hlýddu á guðsorð og sálmasöng.
Það voru Kristján Valur Ingólfsson, biskup , Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir og Sindri Geir Óskarsson guðfræðingur sem þjónuðu í messunni. Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir stýrði söng, einsöngvari var Benedikt Kristjánsson, Gunnar Sigfússon lék á trompet og Haukur Ingólfsson á gítar. Að messu lokinni var boðið upp á kaffi og kleinur áður en kirkjugestir héldu heim á leið.