Framsýn kallar eftir upplýsingum um leikskólagjöld hjá Norðurþingi

Í byrjun maí óskaði Framsýn stéttarfélag eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu Norðurþingi varðandi kostnað við skólavistun með hressingu og mat auk leikskólagjalda hjá sveitarfélaginu sem koma ekki vel út í samanburði við önnur sveitarfélög. Það staðfestir könnun sem Verðlagseftirlit ASÍ gerði meðal 16 stærstu sveitarfélaga landsins. Framsýn hefur ekki borist svar við fyrirspurninni til Norðurþings tæpum einum og hálfum mánuði síðar.

Framsýn ákvað að taka þetta mál upp til umræðu í ljósi þess að barnafólk innan Framsýnar hefur komið á framfæri beiðnum þess efnis að félagið skoði samanburð á leiksólagjöldum í sveitarfélaginu við önnur sambærileg sveitarfélög. Í kjölfarið óskaði félagið eftir samanburði frá Alþýðusambandinu á leikskólagjöldum hjá Norðurþingi samanborið við þau sveitarfélög sem voru í könnuninni sem verðlagseftirlitið gerði.

Því miður kemur samanburðurinn ekki vel út fyrir barnafólk í Norðurþingi samanber meðfylgjandi samantekt Alþýðusambands Íslands. Fram kemur að leikskólagjöld fyrir 8 tíma vistun með fæði hjá forgangshópum eru hæst hjá Norðurþingi. Almenn leikskólagjöld með fæði eru einnig í hærri kantinum hjá Norðurþingi. Þá er einnig kostnaður við skólavistun með hressingu og mat einnig í hærri kantinum m.v önnur sveitarfélög. 

Eins og fram kemur í þessari frétt bíður Framsýn eftir skýringum á gjaldskrám Norðurþings og hvers vegna leikskólagjöldin eru almennt hærri hjá sveitarfélaginu en hjá þeim sveitarfélögum sem tiltekin eru í könnun Verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands.

 

 

 

Deila á