Nýr kjarasamningur LÍV og SA var undirritaður nýlega. Hér að neðan má sjá nokkur af helstu atriðum samningsins:
2019 = Öll laun hækka um kr. 17 þúsund á mánuði frá og með 1. apríl.
2020 = Taxtar hækka um kr. 24 þúsund á mánuði en almenn hækkun er kr. 18 þús. frá og með 1. apríl.
2021 = Taxtar hækka um kr. 24 þúsund á mánuði en almenn hækkun er kr. 15.750 frá og með 1. janúar.
2022 = Taxtar hækka um kr. 25 þúsund á mánuði en almenn hækkun er kr. 17.250 frá og með 1. janúar.
Orlofsuppbót hækkar árlega um þúsund krónur, er 50 þúsund krónur á þessu ári og 53 þúsund krónur á árinu 2022. Auk þess verður greiddur 26 þúsund króna orlofsuppbótarauki til allra fyrir 2. maí 2019. Orlofsuppbót árið 2019 verður því samtals 76 þúsund krónur.
Í samningnum er gert ráð fyrir styttri vinnuviku félagsmanna, frá 45 mínútum að lágmarki í allt að tvo tíma á viku, og auknum sveigjanleika. Markmiðið er að gera vinnumarkaðinn fjölskylduvænni. Samið verður um hvernig styttri vinnuvika verður útfærð á hverjum vinnustað fyrir sig, það getur verið allt frá því að stytta hvern vinnudag í að fjölga orlofsdögum.
Viðamiklar aðgerðir stjórnvalda á samningstímanum nema um 80 milljörðum króna og er einkum ætlað að styrkja stöðu ungs barnafólks og tekjulægri. Þær gera m.a. ráð fyrir mikilvægum skrefum í átt að afnámi verðtryggingarinnar og verða verðtryggð jafngreiðslulán ekki heimiluð til lengri tíma en 25 ára frá og með næstu áramótum. Þá munu ný verðtryggð lán miðast við vísitölu án húsnæðisliðar. Heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán verður framlengd í tvö ár og einnig verður heimilt að ráðstafa 3,5% lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðiskaupa. Gerðar verða frekari breytingar á skattkerfinu sem fela í sér skattalækkun um alls tíu þúsund krónur, þegar þær hafa komið að fullu til framkvæmda. Það er ígildi tæplega 16 þúsund króna launahækkunar fyrir skatt.
Nánar má lesa um samninginn með því að smella hér.