Nýlega var 36 sjómönnum í áhöfn frystitogarans Guðmundar á Nesi sagt upp störfum eftir að Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) ákvað að setja togarann á söluskrá. Samkvæmt heimildum Framsýnar stéttarfélags er reyndar þegar búið að selja skipið til Grænlands og samkvæmt sömu heimildum er skipið í næst síðustu veiðiferðinni. Tæplega þriðjungur áhafnarinnar er í Framsýn stéttarfélagi. Í tilkynningu frá útgerðarfélaginu segist fyrirtækið harma aðgerðirnar. Í upphafi þessa árs gerði fyrirtækið út fjóra frystitogara frá Reykjavík. Í upphafi næsta árs mun félagið aðeins gera út einn slíkan, Kleifaberg, og þá mun sjómönnum félagsins hafa fækkað um samtals 136.
Í tilkynningu útgerðarfyrirtækisins segir að ástæður þessarar óheillaþróunar séu fjölmargar en þær helstu eru „erfiðar rekstraraðstæður frystitogara sem stjórnvöld á Íslandi beri verulega ábyrgð á með óhóflegri gjaldtöku stimpil- og veiðigjalda.“ Þá er verkfall sjómanna í fyrra einnig tekið inn í myndina og segir félagið að kjarasamningar í kjölfar verkfallsins hafi gert rekstur frystitogara erfiðan við Ísland.
Því miður er með ólíkindum hvað sumar útgerðir þessa lands geta lagst lágt í að verja gjörðir sínar. Það að halda því fram að verkfall sjómanna hafi leitt til þess að útgerðir þurfi að losa sig við fiskiskip er algjör fjarstæða og til skammar fyrir viðkomandi útgerðir sem halda slíku fram. Talandi um veiðigjöld hafa þau ekki verið meira íþyngjandi en svo að búið er að endurnýja flotann að töluverðu leyti á síðustu árum auk þess sem öflug skip eru í smíðum erlendis. Þá hefur ekki vantað að hluthafar þessara sömu fyrirtækja hafi verið að greiða sér svimandi háar arðgreiðslur sem eiga sér vart hliðstæður í íslensku viðskiptalífi.
Það að halda því fram að veiðigjöld og verkföll sjómanna hafi skapað þessa stöðu er því algjör brandari og á skjön við veruleikann svo ekki sé meira sagt. Reyndar mikil lítilsvirðing við sjómenn. Eðlilega er sjómönnum brugðið sem síðustu vikurnar og mánuði hafa misst vinnuna eða eru með uppsagnarbréfin í vasanum.
Framsýn er í góðu sambandi við þá sjómenn sem þetta á við um sem eðlilega er brugðið og mjög óánægðir með stöðu mála. Félagið kallar eftir auknu siðferði meðal útgerðarmanna og að lífeyrissjóðir fjárfesti ekki í fyrirtækjum sem haga sér með þessum hætti.
Samkvæmt lögum eru lífeyrissjóðir eign sjóðsfélaga. Útgerðarmenn eiga ekki að komast upp með að gambla með lífeyrissjóði sjómanna eða annarra sjóðsfélaga í eigin þágu og grafa þannig undan stöðu sjómanna og lífsviðurværi þeirra eins og dæmin sanna.
Framsýn stéttarfélag skorar á útgerð Guðmundar í Nesi að hætta við söluna á skipinu og að uppsagnir áhafnarinnar verði þegar í stað dregnar til baka. Þá hvetur félagið Lífeyrissjóðinn Gildi til að endurskoða fjárfestingastefnu sjóðsins er viðkemur þeim fyrirtækjum sem haga sér með þeim hætti sem endurspeglast í vinnubrögðum Útgerðarfélags Reykjavíkur og HB Granda. Það verður aldrei friður um fjárfestingar lífeyrissjóða meðan fyrirtæki haga sér með þessum hætti í skjóli fjármagns frá lífeyrissjóðum.