Starfsgreinasamband Íslands og Félag íslenskra félagsliða boðaði til fræðslufundar fyrir félagsliða af öllu landinu þann 20. september 2018. Um 40 félagsliðar mættu á fundinn frá almennu og opinberu félögunum, alls staðar af landinu. Tveir félagsmenn úr Framsýn voru á fundinum, þær Ósk Helgadóttir og Kristbjörg Sigurðardóttir. Að þessu sinni var lögð áhersla á hópastarf, hvernig félagsliðar geti styrkt sig félagslega og faglega auk þess að styrkja stöðu stéttarinnar út á við. Auk þess var kynning á framkvæmd kjaraviðræðna, hvers ber að vænta í vetur, kynning á Bjarkarhlíð, kynning á framhaldsnámi fyrir félagsliða og jákvæð sálfræði.
Fræðslufundur félagsliða er orðinn fastur liður í starfsemi Starfsgreinasambandsins og dæmi um náið og gott samstarf á milli stéttarfélaga á almenna markaðnum og hinum opinbera. Kröfur félagsliða eru þær sömu og undanfarin ár, að stéttin sé viðurkennd sem heilbrigðisstétt og fái löggildingu sem slík. Námið haldi áfram að þróast og störf félagsliða verði kynnt betur í samfélaginu.