Samninganefnd Framsýnar kom saman til fundar kl. 17:00 í dag til að yfirfara drög að kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Nefndin er skipuð tæplega 30 fulltrúum frá vinnustöðum á félagssvæði Framsýnar. Eftir góðar umræður voru drög að kröfugerð Starfsgreinasambandsins samþykkt samhljóða með lófaklappi. Kröfugerðin er í anda kröfugerðar Framsýnar sem tekin var til greina ásamt kröfugerðum annarra stéttarfélaga innan Starfsgreinasambandsins. Samræming fór fram á formannafundi/samninganefndarfundi Starfsgreinasambandsins sem haldinn var á Selfossi í síðustu viku. Til stendur að ganga endanlega frá kröfugerðinni á fundi samninganefndar SGS á morgun í Reykjavík. Ljóst er að kröfugerðin mun vekja töluverða athygli þegar hún verður lögð fram.
Rétt í þessu var samninganefndarfundi Framsýnar að ljúka. Kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands var samþykkt með lófaklappi. Formaður Framsýnar mun fylgja eftir niðurstöðu fundarins á samninganefndarfundi SGS sem haldinn verður í Reykjavík á morgun.