Undanfarna mánuði hefur Framsýn stéttarfélag unnið að mótun kröfugerðar sem innlegg inn í sameiginlega kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands Íslenskra verslunarmanna. Framsýn hefur þegar veitt þessum tveimur samböndum sem félagið á aðild að samningsumboð fh. félagsins.
Mótun kröfugerðar fór þannig fram að farið var í kannanir meðal félagsmanna, vinnustaðaheimsóknir og þá voru haldnir tveir félagsfundir fyrir íslensku- og enskumælandi félagsmenn.
Framsýn gerir sér fulla grein fyrir því að stjórnvöld verði að liðka fyrir samningunum með aðkomu er varðar velferðar- og skattamál.
Tillögum Framsýnar hefur verið komið á framfæri við samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands sem kemur saman í byrjun október til að móta endanlega kröfugerð sambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins, það er þegar kröfur og samningsumboð aðildarfélaganna liggja fyrir.
Helstu atriði kröfugerðarinnar gagnvart Samtökum atvinnulífsins eru:
-
- Lágmarkslaun verði kr. 375.000 á mánuði mv. full starf.
- Gildistími kjarasamningsins verði frá 1. janúar 2019 þegar núgildandi kjarasamningur rennur út. Lengd samningsins fari eftir innihaldi hans.
- Samið verði um krónutöluhækkanir
- Samið verði um nýja launatöflu þar sem núverandi tafla er löngu úrelt. Það er að ákveðið hlutfall sé milli flokka, þrepa og starfsaldurs.
- Laun ungmenna verði með sambærilegum hætti og var fyrir undirskrift síðustu kjarasamninga. Það er að miðað verði við 18 ára aldur m.v. launataxta viðkomandi en ekki 20 ára aldur. Í þessu sambandi þarf að taka mið af lögum nr. 86 frá 25. júní 2018. „Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.“
- Samið verði um styttingu vinnuvikunnar gegn sömu launum.
- Orlofsréttur færist óskertur milli atvinnurekenda, tekin verði upp lífaldurstenging líkt og er hjá sveitarfélögunum.
- Starfsmenntun og ábyrgð í starfi verði almennt metin til hærri launa.
- 80% vaktavinna teljist full vinna.
- Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningunum:
-
- Í ljósi þess að skattbyrði hefur aukist mest hjá lágtekjufólki er eðlilegt að verkalýðshreyfingin krefjist þess að ríkstjórnin komi til móts við þennan hóp með skattkerfisbreytingum. Fjölgun skattþrepa eða sérstök hækkun á persónuafslætti þeirra sem eru á lágmarkslaunum verði skoðað.
- Íbúðafélagið Bjarg þarf að virka fyrir alla, burt séð frá búsettu. Mikilvægt er að farið verði í sértækar aðgerðir til að bæta úr húsnæðisvanda fólks á landsbyggðinni, á svokölluðum köldum svæðum.
- Tekjutengingar bóta frá TR vegna lífeyrissjóðsgreiðsla einstaklinga frá lífeyrissjóðum verði teknar til endurskoðunar. Núverandi kerfi er ekki síst óréttlátt fyrir lágtekjufólk.
- Þátttaka ríkisins í kostnaði fólks í dreifbýlinu sem gert er að sækja þjónustu fjarri heimabyggð vegna hagræðingar hjá ríkisstofnunum verði aukin s.s. í heilbrigðisþjónustu.
- Málefni öryrkja og eldri félagsmanna:
- Verkalýðshreyfingin horfi til stöðu öryrkja og aldraðra með það að markmiði að þeim verði tryggðar sambærilegar hækkanir og verða á almenna vinnumarkaðinum. Þessari kröfu þarf að koma skýrt á framfæri við stjórnvöld komi til þess að þeir gefi út yfirlýsingu um beina aðkomu þeirra að kjarasamningsgerðinni.