Félagsfundur Framsýnar sem haldinn var síðasta þriðjudag, 18. september, samþykkti að veita Starfsgreinasambandi Íslands umboð til samningagerðar fyrir hönd félagsins vegna kjarasamninga sem félagið á aðild að og losna 31. desember 2018. Um er að ræða kjarasamninga sem Framsýn á aðild að í gegnum Starfsgreinasamband Íslands gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Umboðið nær ekki til sérkjarasamnings Framsýnar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins vegna PCC BakkiSilikon hf.
Þá samþykkti félagsfundurinn einnig að veita Landssambandi íslenskra verslunarmanna samningsumboð vegna kjarasamnings sambandsins og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að.
Framsýn áskilur sér rétt til að afturkalla samningsumboðið telji samninganefnd félagsins ástæðu til þess.
Eins og fram kemur í ályktun fundarins sem fjallað var um á heimasíðunni í gær lögðu fundarmenn mikið upp úr góðu samstarfi við VR í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Þess má geta að formenn VR og Framsýnar hafa ákveðið að hittast í dag og skoða möguleikana á samstarfi í komandi viðræðum við atvinnurekendur.
Formenn VR og Framsýnar munu hittast í Reykjavík í dag og skoða möguleika á samstarfi í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.