Fulltrúum Framsýnar var boðið í skoðunarferð í Sjóböðin sem eru í byggingu á Húsavíkurhöfða. Með í för í morgun var framkvæmdastjóri Sjóbaðanna ehf. og afmælisbarn dagsins, Sigurjón Steinsson. Sjóböðin verða markaðssett undir vörumerkinu GeoSea. Sigurjón hefur undanfarin ár starfað sem rekstrarstjóri hjá Kilroy Iceland og þar áður hjá Landsbankanum. Sigurjón er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst.
Öldum saman hefur jarðhitinn norðan við Húsavík verið þekktur og jafnvel nýttur til baða og þvotta. Þegar borað var eftir heitu vatni á Húsavíkurhöfða upp úr miðri síðustu öld kom upp vatn sem reyndist vera heitur sjór og of steinefnaríkur til að henta til húshitunar. Í stað þess að heita vatnið færi til spillis var gömlu ostakari komið fyrir uppi á Húsavíkurhöfða. Þar hafa Húsvíkingar og gestir þeirra getað baðað sig upp úr heitum sjó, sér til heilsubótar. Þeir sem hafa verið með húðkvilla, líkt og Psoriasis, hafa nýtt sér aðstöðuna og fundið frið í eigin skinni. Vatnið er líka í kjörhitastigi fyrir slík böð eða 38°-39°C.
Vatnið í GeoSea sjóböðunum kemur úr tveimur borholum sem þegar eru til staðar, önnur er í notkun við ostakarið á höfðanum og hin er við Húsavíkurhöfn. Ekki er þörf á hreinsiefnum eða búnaði í sjóböðunum því stöðugt gegnumstreymi vatns frá borholum, milli lauga, yfir barma þeirra og út í sjó er nóg til að halda heilbrigði vatnsins innan tilskilinna heilbrigðismarka. Í GeoSea sjóböðunum koma menn til með að nóta náttúrunnar á einstakan hátt. Hitinn í iðrum jarðar sér um að sjórinn í böðunum sé hlýr og góður og steinefnaríkt vatnið gælir við hörundið. Á meðan hlýr sjórinn vinnur sín kraftaverk njóta gestir útsýnis yfir fjallgarðinn í vestri, Skjálfandaflóann fyrir neðan klettana og sjálfan Norður-heimskautsbauginn við sjóndeildarhring. Þá eru eyjarnar fögru, Lundey, Flatey og Grímsey sjáanlegar þegar gestir flatmaga í böðunum við hamrabeltið á Húsavíkurhöfða. Sjóböðin munu opna eftir nokkrar vikur. Sjá myndir sem teknar voru í heimsókninni í morgun en þá voru fjölmargir iðnaðarmenn við störf enda markmiðið að opna böðin sem fyrst. Ljóst er að böðin eiga eftir að draga til sín fjölmarga gesti enda einstök upplifun að upplifa, vatnið, fegurðina og dýralífið á Skjálfanda: