Rétt í þessu var fjörugum og málefnalegum aðalfundi Framsýnar stéttarfélags að ljúka. Mörg mál voru á dagskrá fundarins. Samþykkt var að stórhækka styrki til félagsmanna úr sjúkrasjóði. Vinna er hafin við mótun kröfugerðar, til stendur að skoða stækkun á félagssvæðinu og þá var tillaga um vantraust á störf forseta Alþýðusambands Íslands samþykkt samhljóða. Hér má lesa samþykkt fundarins:
„Alþýðusamband Íslands hefur ekki talið ástæðu til að verða við beiðni Framsýnar stéttarfélags um að taka úr umferð auglýsingar þar sem varað er við launahækkunum til láglaunafólks.
Því samþykkir aðalfundur félagsins að lýsa yfir vantrausti á forseta Alþýðusambands Íslands.
Það er með ólíkindum að Alþýðusamband Íslands skuli leyfa sér að verja ofurlaunahækkanir til embættismanna þjóðarinnar, forstjóra fyrirtækja og aðila í fjármálageiranum með því að berja niður samtakamátt verkafólks í landinu með áróðursauglýsingum. Samtök sem eiga að setja málstað vinnandi fólks ofar öllu.
Það að vara verkafólk við því að fylgja eftir kröfum sínum er undarleg hugmyndafræði. Sú túlkun forystumanna launþega á því að það séu einungis kaupkröfur þeirra sem skapa þjóðarauðinn sem leiða af sér óðaverðbólgu og ólgu á íslenskum vinnumarkaði er með öllu óskiljanleg. Kaupmáttur launa sé það sem menn eigi að horfa til, annað skipti ekki máli.
Hverju hefur þessi stefna skilað verkafólki í landinu:
- Lágmarkslaun verkafólks hafa hækkað á 20 árum um einungis 230.000 krónur á mánuði.
Til samanburðar er athyglisvert að skoða hækkanir hjá völdum aðilum milli árana 2016 – 2017 og tilgreindar eru í ársreikningum félaganna:
- Forstjóri N1 hækkaði í launum um 1 milljón á mánuði, mánaðarlaun 5 milljónir.
- Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði í launum um 800 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,7 milljónir.
- Forstjóri Eimskips hækkaði í launum um tæp 700 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 8,6 milljónir.
- Bæjarstjóri Kópavogs hækkaði um 612 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,5 milljónir.
- Forstjóri Símans hækkaði í launum um 433 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4 milljónir.
- Forstjóri Isavia hækkaði um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,1 milljón.
- Forstjóri Reita hækkaði í launum um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3,7 milljónir.
- Forstjóri HB Granda hækkaði í launum um 330 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,2 milljónir.
- Verkamaðurinn á gólfinu hjá Granda með níu ára starfsreynslu í fiskvinnslu hækkaði um tæplega kr. 12.000 á mánuði, mánaðarlaun kr. 274.151.
Þessu til viðbótar er rétt að rifja upp að kjararáð hefur hækkað laun æðstu embættismanna og ráðherra, auk þess að hækka þingfarakaup sem nemur um 200 til 400 þúsund krónur á mánuði með afturvirkum hækkunum til allt að tveggja ára.
Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags sættir sig ekki við undanhald líkt og boðað er í auglýsingaherferð Alþýðusambands Íslands. Þess í stað kallar Framsýn eftir samfélagssáttmála um sérstakar aðgerðir til handa láglaunafólki í landinu í gegnum skattkerfisbreytingar og bætt launakjör.
Það er hlutverk stéttarfélaga að vera málsvarar sinna félagsmanna. Framsýn stéttarfélag tekur hlutverk sitt mjög alvarlega og mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir auknum lífsgæðum og réttindum félagsmanna. Annað er ekki í boði.“
Miklar umræður urðu á fundinum í kvöld um stöðuna í verkalýðshreyfingunni og kjaraviðræðurnar sem eru framundan við Samtök atvinnulífsins. Á næstu dögum verður fjallað nánar um fundinn á heimasíðu félagsins.