Auglýsing Alþýðusambands Íslands sem virðist hönnuð á skrifborði Samtaka atvinnulífsins hefur vakið mikla athygli. Þar er kjarabarátta verkafólks töluð niður, verkföll skili ekki árangri sem og launahækkanir. Auglýsingin kemur í umferð á sama tíma og fréttir berast af ofurhækkunum forstjóra í landinu. Umfjöllunin virðist hafa algjörlega farið fram hjá ASÍ. Þrátt fyrir að þess hafi formlega verið krafist að birtingu á auglýsingunni verði hætt þegar í stað hefur sambandið ekki orðið við þeirri beiðni. Greinilegt er að auglýsingin er hönnuð af hagfræðingi, væntanlega forseta ASÍ. Það er morgun ljóst að ef auglýsingin væri hönnuð af verkafólki væri auglýsingin með allt öðrum hætti. Þar væri talað um hækkanir í krónum, það er hvað laun hefðu hækkað í krónum talið ekki prósentum. Þá væri talað um húsnæðismálin þar sem verkafólk getur almennt ekki eignast húsnæði vegna lélegra launa og vaxtastigs. Exelskjal Alþýðusambandsins tekur ekki á þessum þáttum og skilur ekki stöðu verkafólks. Því miður er það þannig að stjórnendur ASÍ eru svo lokaðir að þeir geta ekki hugsað sér að taka út auglýsinguna, þrátt fyrir að hún skaði málstað sambandsins. Þá er með ólíkindum að aðildarfélög Alþýðusambands Íslands skuli ekki almennt gera athugasemdir við þessa framsetningu. Eru þau virkilega svona máttlaus og áhugalaus um velferð félagsmanna?