Góð viðbrögð við ræðu formanns, kallar eftir samfélagssáttmála og að verkalýðshreyfingin vígbúist fyrir komandi kjaraviðræður

Það er mikil stemning á hátíðarhöldum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem nú standa yfir í íþróttahúsinu á Húsavík og er mikið fjölmenni saman komið. Rétt í þessu var ræðu formanns Framsýnar að ljúka og var henni mjög vel tekið. Að venju kom Aðalsteinn víða við og skaut föstum skotum. Hann kallar eftir samfélagssáttmála þar sem hagsmunir verkafólks, öryrkja og aldraðra verði hafðir að leiðarljósi. Ræðan er hér meðfylgjandi.

Ágætu félagar

Í byrjun síðustu aldar fór verkafólk í Þingeyjarsýslum að skipuleggja sig í verkalýðsfélög. Það áttaði sig á aflinu sem bjó í fjöldanum og samstöðunni og gerði því kleift að virkja aflið í hverjum og einum til góðra verka.

Um þessar mundir er þess minnst að hundrað ár eru liðin frá þeim tíma að húsvískar alþýðukonur stofnuðu Verkakvennafélagið Von.

Kannski voru það fyrstu „geislar maísólar alþýðufólks“  sem kváðu á um frelsi, jafnrétti og bræðralag sem vöktu von í brjósti kvennanna og atti þeim út í stofnun slíks framfarafélags.

Við erum að tala um tíma þar sem skortur var ekki hugtak, heldur bláköld staðreynd og verkalýðsbaráttan var í raun sjálf lífsbaráttan.

Það blésu naprir vindar um fátækt fólk sem stritaði langan vinnudag til að eiga í sig og á.

Kaupmaðurinn sem var í flestum tilfellum einnig vinnuvitandinn hafði afkomuöryggi fjölskyldunnar í hendi sér. Hann ákvað launin og vinnutímann.

Fátæka fólkið á gólfinu stóð höllum fæti í þeim viðskiptum og var ekki ætlað að hafa skoðanir á sínum kjörum. Það beit lengi vel á jaxlinn og bölvaði í hljóði.

Auður verkakvenna fólst ekki í digrum sjóðum félagsins, heldur  í samhyggð og hluttekningu þeirra.

Konurnar í Von og aðrir frumkvöðlar verkalýðshreyfingarinnar eru hluti af okkar fortíð og lífi sem er í hugum yngri kynslóða löngu horfið.

Við horfum nú til kynslóðar sem finnst verkalýðsbarátta ekki koma sér við og hefur aldrei heyrt talað um helstu sigra sem áunnist hafa með samstöðu verkafólks af báðum kynjum í gegnum tíðina. Allt þykir svo sjálfsagt í dag.

Við þurfum að viðhalda keðjunni og rétta kyndilinn áfram og fá ungt fólk til að leggjast á árarnar með okkur. Við þurfum þeirra aðstoð til að viðhalda ferskleika hreyfingarinnar og aðlaga okkur að breyttum heimi, ekki síst með þeirra skoðanir að leiðarljósi og reynslu okkar sem eldri erum.

Breyttur heimur gerir það að verkum að við þurfum að verjast, því æ sjaldnar snýst umræðan um afkomuöryggi verkalýðs – Jóns og Gunnu, um þeirra kjör eða réttindi, heldur snýst hún um niðurskurð, sparnað, hagræðingu og hámarksgróða fyrirtækja, hluthafa og forréttindahópa.

Jón og Gunna eru enn og aftur föst í viðjum miskiptingar, ofurseld atvinnurekandanum rétt eins og konurnar í stakkstæðunum forðum daga, þau eru jafnvel ekki lengur hluti af starfsmannahópnum, heldur tilheyrandi erlendri starfsmannaleigu.

Lífið snýst áfram um að hafa í sig og á, greiða af húsnæðinu sem nánast ómögulegt er að eignast við núverandi aðstæður vegna vaxtaokurs á Íslandi.

Jón og Gunna gera heiðarlega tilraun til að jafna skuldina við Valitor um hver mánaðamót með von í brjósti um að innkoman eftir langa vinnuviku fari langt með að dekka uppsafnaðar skuldbindingar. Því miður dugar það ekki alltaf til fyrir efnalítið fólk, aldraða og öryrkja.

Á meðan skammtar forstjóri fyrirtækisins, sem jafnvel er í eigu lífeyrissjóðs Jóns og Gunnu sér ofurlaun í formi bónusgreiðslna, sem byggðar eru á færri höndum sem vinna æ hraðar.

Það er ekkert merkilegt við það að vera forstjóri Eimskips, það er miklu merkilegra að vera ljósmóðir og því fylgir auk þess miklu meiri ábyrgð.

Ofurlaun forstjórans tryggja honum rúmlega 100 milljónir í árslaun. Á sama tíma er verkafólki eins og Jóni og Gunnu ætlað að kyssa á vöndinn og brosa með 3,3 milljónir í árslaun.

Þess má geta að forstjóri Eimskips er tæplega níu daga, takið eftir tæplega níu daga, að vinna fyrir árslaunum verkafólks sem starfar eftir almennum kjarasamningum. 99% launaflokka Starfsgreinasambandsins, þar sem störfum er raðað samkvæmt ákvæðum kjarasamninga, eru undir 300 þúsundum krónum á mánuði. Það er 1. maí  2018.

Að sjálfsögðu er þetta langt frá því að vera í lagi, gott fólk. Eða eins og verkakonan orðaði það beint frá hjartanu. Hefur virkilega einhver að gera með öll þessi laun, tekst honum að eyða öllum þessum peningum?

Já, það er skiljanlegt að fólk með um 250 þúsund krónur á mánuði spyrji svona spurninga.

Forstjóri Eimskips er ekki einn í þessum hópi, það er í grátkórnum sem endalaust kemur þeim skilaboðum á framfæri við þjóðina að atvinnulífið megi ekki við holskeflu launahækkana verkafólks.

Launakjör forstjóra hafa verið til umræðu í fjölmiðlum s.s. tryggingafélaga, Bláa lónsins, Icelandair Group svo ekki sé talað um forstjóra N1 sem tengir kjör sín við „árangur“ í starfi eins og þekkt er í heimi elítunnar. Það er á rekstrarafkomu sem byggir á því m.a. að halda niðri launum almennra starfsmanna svo afkomutölurnar verði betri fyrir hluthafana, hverjir græða, starfsfólkið NEI, forstjórarnir JÁ, sem síðan fá bónusa á silfurfati í verðlaun frá stjórnum fyrirtækjanna.

Þessir hópar, það er auðvaldið, hafa búið við sjálftöku og siðblindu á háu stigi í íslensku viðskiptalífi. Þessi ofurlaun eru til þess fallinn að auka á þá tilfinningu almennings að hann hafi verið skilinn eftir og þeir sem fleyttu rjómann fyrir hrun fái að gera það áfram átöllulaust.

Á sama tíma hefur kjararáð ekki látið sitt eftir liggja og spreðað taktlausum launahækkunum til embættismanna eins og um brunaútsölu sé um að ræða.

Meðan þingmenn afnema ekki núverandi kerfi varðandi launahækkanir til þeirra eða laga reglurnar til samræmis við það sem gerist á almenna vinnumarkaðinum geta þeir ekki vænst þess að virðing fólks gagnvart störfum Alþingis aukist, en hún er um þessar mundir í sögulegu lágmarki.

Það er reyndar ömurlegt til þess að vita, að á sama tíma, þurfa þúsundir einstaklinga að reiða sig á framfærslu í gegnum opinbera sjóði eins og ellilífeyrisþegar, öryrkjar og þeir sem atvinnulausir eru.

Af hverju ættu þessir hópar að þurfa að lepja dauðann úr skel á sama tíma og óbeislað peningaflóð flæðir frá Kjararáði til embættismanna ríkisins sem eru á launaskrá hjá sama launagreiðenda og atvinnulausir, aldraðir og öryrkjar, það er hjá ríkisjóði.  Er þetta jafnræði, NEI?

Fyrir liggur að eldri borgarar og öryrkjar hafa ekki verkfallsrétt og verða því að unna því sem þeim er úthlutað úr hendi fjármálaráðherra á hverjum tíma. Maður hefur það á tilfinningunni að stjórnkerfið sé sífellt að reyna að spara peninga, á kostnað þeirra sem minnst mega sín.

Ég skal fúslega viðurkenna að mér er gróflega misboðið. Ekki bætir úr skák þegar ákveðnir þingmenn voru uppvísir að því að framvísa reikningum fyrir óheyrilegum aksturskostnaði í og úr vinnu. Kostnaði á mánuði sem er langt umfram mánaðarlaun vinnandi fólks s.s. við umönnun á sjúkra- og dvalarheimilum. Er von að auglýst sé eftir siðferði hjá þessum aðilum sem haga sér svona.

Já svo tala fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Seðlabankans og ráðamenn þjóðarinnar um að tekist hafi að hækka lægstu laun verkafólks „sérstaklega“ umfram aðra hópa í íslensku samfélagi. Kaupmáttur lægstu launa hafi hækkað umfram tekjuhærri hópa.

Þvílíkt bull og blaður enda liggja fyrir upplýsingar um hækkanir elítunar og ráðamanna þjóðarinnar í krónum talið síðustu 20 ár, á þeim tíma voru lægstu laun kr. 70.000 á mánuði.

Í krónum talið hafa laun verkafólks einungis hækkað um 210 þúsund krónur á mánuði á þessu tímabili og eru nú kr. 280.000 meðan forstjórar íslenskra fyrirtækja hafa hækkað í krónum talið sem nemur frá 3,6 milljónum upp í 6 milljónir og þingfarakaupið um 880 þúsund. Hér er verið að tala um launahækkanir á mánuði á tuttugu ára tímabili.

Þessir aðilar velja að tala um prósentuhækkanir í stað krónutöluhækkana enda miklu, miklu hagstæðara fyrir þá.

Gleymum því heldur aldrei að ekkert okkar fer og verslar með prósentum, við förum öll með krónur til að versla með og greiðum reikninga með krónum.

Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að ef við ætlum í raun að taka á þessari gríðarlegu misskiptingu í íslensku samfélagi þá verðum við að hætta að semja í prósentum og semja þess í stað eingöngu í krónutölum!

Prósentulaunahækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og stuðlar að gríðarlegum ójöfnuði meðal vinnandi fólks.

Eins og oft áður hefur ekki náðst samstaða um þetta markmið, en mín skoðun liggur skýr fyrir og ég er tilbúinn að rökstyðja hvar sem er og hvenær sem er.Árið 1998 voru mánaðarlaun forstjóra N1 1,6 milljónir á mánuði í dag eru þau tæpar 6 milljónir og hafa því hækkað í krónum talið um 4,4 miljónir mánuði á þessum 20 árum.

Í tilefni þess að í ár eru 10 ár liðin frá bankahruninu er rétt að rifja upp að greiningadeildar bankanna höfðu mestar áhyggjur af launahækkunum til þeirra lægst launuðu. Þeir kölluðu eftir „ró“ á vinnumarkaði.

Svokallaðir spekingar höfðu ekki nokkrar áhyggjur að því að verið væri að ræna bankakerfið innan frá beint fyrir framan augun á þeim. Reyndar hefur verið sagt að besta leiðin til að ræna banka sé að eignast þá. Þetta eru sannarlega orð á sönnu sbr. íslenska fjármálakerfið.

Já, ég vara við þessum „snillingum“ nú í aðdraganda næstu kjarasamninga. Það er ekki þannig að launahækkanir verkafólks ógni hinum ímyndaða stöðugleika.

Trúið mér, ekki hlusta á þetta bull sem vellur stjórnlaust upp úr varðhundum fjármálageirans þegar kemur að því að leiðrétta kjör þeirra lægst launuðu. Það eiga allir þegnar þessa lands rétt á því að leggjast áhyggjulausir á koddann á kvöldin, ekki bara fáir útvaldir.

Ágætu félagar!

Það blása hressandi vindar um íslenska verkalýðshreyfingu þetta vorið og nýtt fólk með ríka réttlætiskennd hefur stigið fram á sviðið. Alþýðufólk sem talar mál sem fólk skilur, talar um auðvald, um arðrán og firringu. Nýir formenn tveggja stærstu verkalýðsfélaga landsins VR og Eflingar  finna samhljóm innan hreyfingarinnar með reynslumiklum formönnum Framsýnar og Verkalýðsfélags Akraness, sem áður höfðu 3% vægi innan ASÍ í gegnum sín félög.

Saman hafa þessi fjögur félög myndað með sér bandalag og hafa nú 53% vægi innan sambandsins, það þýðir að félög sem hafa verið með róttækari áherslur í ýmsum málum hafa náð meirihluta innan ASÍ sem ber að fagna sérstaklega.

Þau krefjast samfélagssáttmála þar sem hagsmunir verkafólks, öryrkja og aldraðra verði hafðir að leiðarljósi.

Þau kalla eftir kerfisbreytingum og umræðum um lífeyrissjóðsmál, húsnæðismál, verðtrygginguna, #MeToo, skattamál og velferðarmál, þau vilja harðari verkalýðsbaráttu og breytingar á forystusveit ASÍ.

Þau hafna Salek samkomulaginu og samræmdri launastefnu.

Trú á Alþýðusambandið mun ekki aukast nema nýr skipstjóri komi í brúna á þingi sambandsins í haust. Ég kalla eftir breytingum,  það er að öllum félagsmönnum Alþýðusambandsins gefist kostur á að kjósa sér forseta. Menn gefi kost á sér til þessa æðsta embættisins innan verkalýðshreyfingarinnar og síðan verði kosið milli þeirra í allsherjar atkvæðagreiðslu. Það á ekki að vera þannig að fámenn klíka stjórni því hver sé forseti sambandsins á hverjum tíma. Sá tími er liðinn.

Trú fólks á verkalýðshreyfinguna mun heldur ekki aukast nema hún standi í lappirnar og berjist. Það var vissulega áfall að ekki náðist samstaða innan ASÍ um að segja upp samningum í febrúar þrátt fyrir að forsendur þeirra væru brostnar.

Sömu stéttarfélög innan ASÍ sem komu í veg fyrir að samningunum yrði sagt upp, tala núna um harða kjarabaráttu í haust þegar samningarnir losna.

Ég segi við þessi félög, látið hug fylgja máli. Það hefur engan tilgang að gelta eða glefsa. Menn þurfa að vera tilbúnir að sína tennurnar og bíta vel frá sér. Annað er marklaust.

Fyrir það stendur Framsýn stéttarfélag og mun vonandi gera áfram sem hingað til. Það er að standa vörð um hagsmuni félagsmanna á öllum sviðum.

Höfum í huga að styrkur verkalýðshreyfingarinnar liggur sem fyrr, fyrst og fremst í hollustu félagsmanna og samstöðu þeirra, það er í öflugu baklandi grasrótarinnar.

Það er nefnilega þannig að ábyrgðartal auðvaldsins um verðbólgu og stöðugleika fellur um sjálft sig þegar fólk sem virkilega þarf að ná endum saman á innan við  300.000 króna mánaðarlaunum, upplifir óstöðugleikann sem fylgir því að lifa á launum sem eru undir fátæktarmörkum.

Það er full ástæða fyrir okkur, fyrir verkalýðs – Jón og Gunnu að huga að vopnum okkar, við getum  slökkt á samfélaginu. Vopnið er ennþá okkar, samtakamáttur hins vinnandi manns.

Góðir félagar: Lifi frelsi, lifi jafnrétti, lifi bræðralag.

 Takk fyrir

 

 

Deila á