Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda tímabundið starfsmenn til Íslands liggur fyrir Alþingi þessa dagana. Eins og gefur að skilja hefur þessi hópur verið mikið í kastljósinu hér á starfssvæðinu undanfarið vegna framkvæmda við stóriðju og orkuver.
Framsýn var beðið að senda umsögn um frumvarpið. Í henni er heilshugar tekið undir umsögn ASÍ sem áður hafði komið fram og sagt að framvarpið gangi of skammt þar sem lögin eigi einungis við um byggingastarfsemi en þyrftu að eiga við fleiri svið, til dæmis ferðaþjónustu, kjötvinnslu og akstur hópferðabifreiða.