Rétt í þessu skrifuðu fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar undir sérkjarasamning við PCC BakkiSilicon sem eru góð tíðindi. Gildistími samningsins er til næstu áramóta þegar kjarasamningar renna út á almenna vinnumarkaðinum. Samningurinn nær til um 70 starfsmanna af þeim rúmlega 100 sem koma til með að vinna hjá fyrirtækinu á Bakka. Hafsteinn Viktorsson forstjóri PCC BakkiSilicon skrifaði undir samninginn fh. Samtaka atvinnulífsins sem komið hafa að gerð samningsins við Framsýn og Þingiðn. Frá stéttarfélögum skrifuðu formenn félaganna undir samninginn, þeir Aðalsteinn Árni Baldursson og Jónas Kristjánsson. Aðalsteinn vildi ekki tjá sig sérstaklega um samninginn að svo stöddu þar sem hann verður tekin til kynningar og afgreiðslu á fundum með starfsmönnum í byrjun næstu viku, það er á mánudag og þriðjudag. Hann sagði eðlilegt að ræða samninginn fyrst við starfsmenn áður en innihald samningsins yrði gert opinbert.
Laufey Sigurðardóttir mannauðsstjóri PCC BakkiSilicon kom við á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag þar sem sérkjarasamningurinn var handsalaður formlega. Með henni eru félagarnir frá Þingiðn og Framsýn, Aðalsteinn Árni og Jónas Kristjánsson.