Þriðjudaginn 6. febrúar kl. 20:00 var haldinn aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar. Fundurinn var að venju málefnalegur og skemmtilegur. Reyndar var ekki fullt hús en þeir sem komu nutu þess að taka þátt í góðum fundi.
Formaður deildar DVS, Jóna Matthíasdóttir flutti skýrslu stjórnar vegna síðasta starfsárs, góðar umræður spruttu upp í kjölfarið. Skýrslan er meðfylgjandi þessari frétt. Stjórnin var endurkjörin enda skilað miklu og góðu starfi á liðnu starfsári. Hana skipa; Jóna Matthíasdóttir formaður, Jónína Hermannsdóttir og Dómhildur Antonsdóttir og í varastjórn Anna Brynjarsdóttir og Karl Hreiðarsson.
Auk venjulegra aðalfundarstarfa gerði Aðalsteinn Árni stuttlega grein fyrir hækkun styrkja til félagsmanna til náms og tengdrar þátttöku. Með nýjum reglum hækkar hámarksstyrkur í upphæð 130.000- á ári eða að hámarki 90% námskostnaðar. Ef réttur er ekki nýttur safnast hann á milli ára og getur mest orðið 390.000 krónur, það er þriggja ára réttur. Þá eiga félagsmenn einnig auka réttindi í Fræðslusjóði Framsýnar sem kemur félagsmönnum sem eru í dýru námi sérstaklega vel.
Hann minnti á að upplýsingar um styrkina eru fáanlegar á skrifstofu félagsins auk þess má þær finna á vefsíðunni www.starfsmennt.is
Í fundarboði var þess getið að flutt yrðu erindi um þróun verslunar og þjónustu í heimabyggð „ Hvernig get ég aðstoðað?“
Jóna Matthíasdóttir og Aðalsteinn Árni fluttu sitt hvort erindið um verslun og þjónustu á Húsavík og hvaða tækifæri geta legið með aukinni vefverslun. Tækifærin geta verið til staðar hjá verslunum á svæðinu. Tilgangur erindanna var að kalla fram umræður og viðbrögð og vekja fólk til umhugsunar um hvað hægt er að gera og hvernig skal bregðast við breyttum verslunarháttum. Erindunum var vel tekið og urðu töluverðar umræður um stöðu verslunar og þjónustu í Þingeyjarsýslum.
Undir liðnum önnur mál urðu umræður um atvinnumál og kjarasamninga, eftirfarandi var bókað í fundargerð:
- Kjarasamningar – staða
Í góðum fyrirspurnum og umræðum kom fram fyrirspurn vegna stöðu kjarasamninga og hvaða útlit væri um uppsögn samninga nú í febrúar þegar endurskoðun þeirra fer fram. Almennt eru ASÍ aðilar að yfirfara stöðuna og áttu m.a. fund með fulltrúum ríkisstjórnarinnar fyrir stuttu. LÍV mun að öllum líkindum boða fljótlega til formannafundar til viðræðna. Í máli fundarmanns kom einnig fram að meðallaun verkafólks, láglaunahópa, þurfi að vera sýnileg og vill fá þann samanburð inn í umræðuna. Launamunur hefur aldrei verið meiri og launabilið, t.d. meðal félagsmanna Framsýnar er mjög breytt. Góð umræða var um lágmarkslaun og taxtalaun og hvernig aukagreiðslur eru oft á tíðum notaðar til að hífa upp heildarlaun en tímakaup og tímakaup yfirvinnu þá haldið niðri. Þegar kom að umræðu um þátttöku og áhuga á kjaramálum þá var bent á að félagsmenn okkar eru frekar dreifður hópur og oft eru fáir starfsmenn innan hvers fyrirtækis sem getur þýtt að umræða þeirra á milli sé minni.
- Atvinnuleysi á svæðinu
Í svörum Aðalsteins Árna kom fram að um 40 manns eru á atvinnuleysisskrá á Húsavík og nærsveitum, fólk með fjölbreytta menntun og bakgrunn.
Það eru ekki margar stjórnir stéttarfélaga á Íslandi eins vel mannaðar og stjórn Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar. Hér er stjórnin í miklu stuði eftir að kjör þeirra lá fyrir á aðalfundi deildarinnar.
Hér má lesa skýrslu stjórnar sem formaður deildarinnar, Jóna Matthíasdóttir, flutti á fundinum:
Fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks býð ég ykkur velkomin til aðalfundar deildarinnar. Eins og þið þekkið eru innan raða Framsýnar stéttarfélags tvær sjálfstæðar deildir, sjómannadeild og Deild verslunar- og skrifstofufólks. Á síðasta starfsári var stjórn deildarinnar þannig skipuð; Jóna Matthíasdóttir formaður, Jónína Hermannsdóttir varaformaður, Dómhildur Antonsdóttir ritari og í varastjórn sátu Anna Brynjarsdóttir og Karl Hreiðarsson. Lítið fór um formleg fundarhöld hjá stjórn á síðasta ári heldur var tekið á málefnum í formi tölvupósta og símtala, hluti stjórnar tók þátt í jólafundi stjórnar og trúnaðarráði Framsýnar. Samkvæmt lögum félagsins er formaður deildarinnar einnig sjálfskipaður í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Formaður er starfandi ritari í stjórn Framsýnar og aðrir fulltrúar aðalstjórnar sitja einnig í stjórnum og ráðum innan Framsýnar.
Við viljum þakka starfsmönnum og formanni félagsins fyrir gott og árangursríkt samstarf auk veittrar þjónustu til stjórnar og félagsmanna. Eðli málsins samkvæmt leita félagsmenn beint til skrifstofu félagsins og formaður upplýstur um. Formaður deildarinnar tók þátt í formannafund LÍV í lok janúar á sl. ár þar sem helsta umræðuefni voru kjarasamningar og starfsmenntunarmál auk húsnæðismála.
Dagana 13. – 14. . október var 30. þing LÍV haldið á Akureyri og var formaður einn 80 þingfulltrúa. Jóna var annar tveggja ritara þingsins auk þess að sitja í kjörnefnd LÍV og var endurkjörin til næstu tveggja ára. Þá var hún kosin annar varamaður í stjórn LÍV til nætu tveggja ára. Þingið bar keim af því að það var afmælisár, erindi voru flutt um húsnæðismál og yfirlit og horfur í efnahagsmálum auk þess sem unnið var í nefnudm, Einnig var farið í kynningar- og fræðsluferð til Siglufjarðar og Ársskógsstrandar. Til kosninga kom um formann LÍV en að lokinni kosningu hlaut Guðbrandur Einarsson meirihluta greiddra atkvæða og situr sem formaður til næstu tveggja ára. Einn þingfulltrúi var heiðraður og hlaut gullmerki LÍV fyrir farsælt og óeigingjarnt starf í þágu verkalýðshreyfingarinnar.
Félagatal
Á árinu 2017 greiddu 249 manns til félagsins, þar af eru konur í miklum meirihluta eða 170 á móti 79 karlmanni. Félagsmönnum hefur fjölgað töluvert, eða um 38 manns, 20 konur og 18 karla.
Fjármál
Skrifstofa stéttarfélaganna er rekin sameiginlega af stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum, auk þess sem Verkalýðsfélag Þórshafnar er með þjónustusamning við hana. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á sl. ári. Innheimta og innkoma félags- og iðgjalda hefur aukist töluvert. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Með auknum fjölda starfsmanna á svæðinu hefur fjöldi félagsmanna og greiðenda aukist með auknum tekjum til félagsins en þýðir einnig aukna vinnu og kostnað fyrir félagið. Endurskoðaður ársreikningur félagsins verður lagður fram á aðalfundi þess sem haldinn verður með vorinu. Stjórn Framsýnar og starfsmenn kappkosta að gæta hagsmuna félagsins og þar með félagsmanna með því að standa vörð um fjármuni þess hér eftir sem hingað til.
Kjara og samningamál
Kjarasamningar voru samþykkir á árinu 2015 og við endurskoðun 2016 var samningur framlengdur út árið 2018 með viðbótum við þær hækkanir sem áður hafði verið samið um. Í febrúar 2017 kom endurskoðunarnefndin aftur saman og niðurstaða þá var að segja ekki upp samningi. Forsendur núverandi kjarasamnings eru til skoðunar nú í febrúar en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort samningi verði sagt upp eða ekki. Verði það gert, mun það gerast á næstum vikum en ef ekki gildir samningur út árið 2018. Fulltrúar sambandanna innan ASÍ hafa átt fundi með fulltrúum ríkisstjórnar þar sem almennt er verið að fara yfir stöðuna í þjóðfélaginu, lausa kjarasamninga framundan stöðuna almennt.
Orlofsmál
Líkt og fyrri ár hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna með sér gott samstarf í orlofsmálum sem eru sem fyrr mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Boðið er upp á fjölmarga kosti; m.a. orlofshús, gistiávísanir á hótelum og farfuglaheimilum auk endurgreiðslu á gistikostnaði á tjaldsvæðum og vegna kaupa á útilegukortum. Helstu samstarfsaðilar eru Foss- og Edduhótelin, Hótel Keflavík, Hótel KEA, Hótel Norðurland, Hótel Reykjavík Lights, Gistihús Keflavíkur og Icelandair hótelin t.d. á Akureyri og Hotel Natura í Reykjavík. Félagsmenn hafa aðgang að íbúð á Spáni sem þeir geta bókað beint hjá eiganda. Allar upplýsingar eru veittar á skrifstofunni.
Jöfn og góð nýting er á íbúðum okkar á höfuðborgarsvæðinu og er það vel. Leitast er við að sem flestir félagsmenn sem sækja um orlofshús fái úthlutun en eins og þið vitið er ekkert punktakerfi við lýði hjá stéttarfélögunum okkar. Okkur til mikillar ánægju var enn og aftur skrifað undir áframhaldandi samning milli Skrifstofu Stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu og flugfélagsins Ernis um kaup á flugmiðum fyrir félagsmenn Framsýnar og tengdra aðila. Um er að ræða eina bestu kjarabót sem okkur félagsmönnum stendur til boða. Nýr samningur er áætlaður að tryggja okkur verð á flugmiða aðra leið milli Húsavíkur og Reykjavíkur fyrir kr. 8.900 út árið 2018 og er það vel. Óhætt er að segja að með samningi þessu séu Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslu að styrkja við og stuðla að frekari flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll. Þjónusta Ernis er til fyrirmyndar, boðið er upp á áætlunarflug sjö daga vikunnar, alls 13 ferðir á viku og mikið um aukaflug á álagsdögum. Á síðasta ári má ætla að tæplega 4000 miðar hafi verið seldir en uppgjör síðasta árs liggur ekki fyrir hjá félaginu.
Fræðslu- og kynningarmál
Félagið er aðili að Starfsmenntunarsjóði verslunar og skrifstofufólks. Nokkur fækkun var milli ára á fjölda félagsmanna og lægri styrkupphæð heldur árinu áður. Á síðasta ári fengu 25 félagsmenn starfsmenntastyrki, alls að upphæð kr. 1.142.506.– Upphæð ársins 2016 var 1.553.355- krónur og bak við þá fjárhæð 35 félagsmenn. Í ársbyrjun 2016 tók í gildi nýjar reglur í Starfmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks sem hafði m.a. áhrif á aukin réttindi þeirra sem eru í lægri tekjuhóp. Við viljum minna félagsmenn á að kynna sér fjölmörg önnur réttindi sem eru einnig í boði og nýta það sem til staðar. Starfmenn skrifstofu félagsins liðsinna ykkur með þær upplýsingar og þær má einnig finna á vefsíðu og í kynningarbæklingi Framsýnar sem er uppfærður reglulega. Deild verslunar – og skrifstofufólks hefur ekki almennt staðið fyrir sérstökum fundum fyrir félagsmenn sína, heldur eru haldnir opnir almennir félagsfundir Framsýnar um margvísleg málefni, m.a. kjarasamninga sem og annað fræðsluefni.
Fréttabréf og heimasíðan www.framsyn.is
Stöðugt birtast fréttir á vefsíðu Framsýnar www.framsyn.is úr starfi Félagsins og aðila Skrifstofu stéttarfélagana auk þess sem fréttir um málefni líðandi stundar í samfélaginu slæðist stundum með. Á tveggja mánaða fresti er gefið út Fréttabréf stéttarfélaganna sem dreift er frítt til allra heimila á félagssvæðinu. Fréttabréfið tekur á helstu málefnum úr starfi stéttarfélaganna. Þar koma m.a. fram upplýsingar til félagsmanna varðandi kjör og starfsemi stéttarfélaganna auk úrdráttur helstu frétta sem birtast á heimasíðunni. Fréttabréfinu er dreift frítt á öll heimili á félagssvæðinu og kemur út á tveggja mánaða fresti.
Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári sem fyrr. Þar eru starfandi 5 starfsmenn í fullu starfi á skrifstofu og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Mikið álag er á skrifstofu félagsins í tengslum við uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á svæðinu auk þess sem talsvert umfang er af sölu flugmiða til félagsmanna eins og má skilja. Tveggja ára samningur við Aðalstein J. Halldórsson, sem gegnir starfi eftirlitsfulltrúa í iðnaði og ferðaþjónustu auk annarra starfa rennur út nú í mars mánuð og er framhald starfsins til skoðunar. Enn sem fyrr sinnir Ágúst Óskarsson þjónustu VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum, með jákvæðum árangri. Á síðasta ári tókum við í notkun glæsilega og endurbætta skrifstofuaðtöðu á efri hæð hússins. Þar voru sett upp átta ný skrifstofurými auk fundarsalar og starfsmannaaðstöðu. Þegar eru sjö rými í útleigu, leigutakar eru mjög ánægðir með þann aðbúnað og aðstöðu sem boðið er upp á og sambúð fjölbreyttra fyrirtækja gengur vel.
Lokaorð
Með þessari stuttu samantekt hef ég gert grein fyrir því helsta úr starfsemi deildarinnar frá síðasta aðalfundi. Starf deildarinnar sem slíkt, er ekki kraftmikið eða viðburðaríkt en við erum ómissandi í starfi félagsins. Ég vil hvetja ykkur öll til þess að taka þátt í þeim viðburðum sem í boði eru, láta ykkur umræðu um kjaramál og velferð í starfi máli skipta og koma tillögum og hugmyndum um úrbætur eða fræðslu á framfæri. Stjórn deildarinnar vill þakka öllum þeim félagsmönnum sem hafa gengt trúnaðarstörfum fyrir félagið, félagsmönnum okkar og starfsmönnum skrifstofu fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.
Trausti Aðalsteins var á fundinum og tók þátt í líflegum umræðum um málefni fundarins.