Starfsmenn og forsvarsmenn Jarðborana gengu frá vinnustaðasamningi í síðustu viku fyrir almenna starfsmenn sem starfa á borum fyrirtækisins á Íslandi og erlendis. Starfsmenn sem að stórum hluta eru í Framsýn leituðu til félagsins eftir aðstoð við að gera samninginn auk þess sem Jarðboranir voru í sambandi við Samtök atvinnulífsins með aðstoð. Samningurinn liggur nú fyrir og er kominn í atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna. Kjörgögnin fóru í póst í gær. Um er að ræða póstatkvæðagreiðslu, starfsmenn geta annars vegar sett atkvæðaseðillinn í kjörkassa sem komið hefur verið fyrir á þeim borum sem eru í gangi á Íslandi eða hins vegar komið þeim á skrifstofu Framsýnar á Húsavík. Samtals eiga 45 starfsmenn rétt á að greiða atkvæði um samninginn. Atkvæðagreiðslan stendur yfir til 12. febrúar. Kjörstjórn Framsýnar sér um atkvæðagreiðsluna og talningu atkvæða.