Sjómenn heiðraðir á Húsavík

Að venju voru sjómenn heiðraðir á Húsavík á Sjómannadaginn. Heiðrunin fór fram í sjómannadagskaffi Slysavarnardeildar kvenna á veitingastaðnum Fjörunni. Í dag voru heiðraðir Viðar Sigurðsson og Ingvar Hólmgeirsson sem lengi stundaði sjómennsku auk útgerðar.  Ingvar var einnig mjög virkur í félagsstarfi og sat meðal annars í stjórn LÍÚ í átta ár. Viðar Sigurðsson hefur komið víða við á sínum farsæla sjómannsferli sem stýrimaður og skipstjóri. Sjómannadeild Framsýnar sá um heiðrunina og gerði Aðalsteinn Árni Baldursson formaður félagsins grein fyrir lífshlaupi þeirra Ingvars og Viðars sem má lesa hér í framhaldinu:

Ágætu tilheyrendur!

Ég vil í upphafi óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra um land allt til hamingju með daginn.

Reyndar okkur öllum enda hefur sjávarútvegur í gegnum tíðina verið einn okkar mikilvægasti atvinnuvegur og fært okkur gjaldeyri og tekjur til að byggja upp grunnstoðir þjóðfélagsins eins og mennta- og heilbrigðiskerfið.

Þrátt fyrir að útgerð á svæðinu hafi dregist töluvert saman á undanförum áratugum skipar dagurinn sem áður ákveðinn sess í lífi okkar Þingeyinga enda tengjumst við sjómennskunni á einn eða annan hátt.

Sjórinn gefur en hann hefur líka tekið sinn toll, því miður.

Þeirri merkilegu hefð er viðhaldið víða um land að heiðra sjómenn á Sjómannadaginn, sjómenn sem þótt hafa skarað fram úr og skilað góðu og fengsælu starfi, fjölskyldum þeirra og þjóðinni allri til heilla.

Í dag ætlum við að heiðra tvo fengsæla sjómenn sem eiga glæstan feril til sjós, annar þeirra er hættur að stunda sjósókn meðan hinn stundar strandveiðar frá Húsavík yfir sumarið að miklu kappi.

Þetta eru þeir Ingvar Hólmgeirsson og Viðar Sigurðsson. Því miður gat Ingvar ekki verið með okkur hér í dag. Þess í stað var hann heiðraður með heimsókn í Garðabæ fyrir helgina, þar sem hann býr ásamt sambýliskonu sinni, Særúnu Sigurgeirsdóttur.

Við það tækifæri komu saman vinir og vandamenn Ingvars sem samglöddust með honum þegar honum var afhent heiðursorða dagsins fyrir framlag hans til samfélagsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ingvar Hólmgeirsson

Ingvar Hólmgeirsson er fæddur 15. júní 1936 að Látrum í Eyjafirði, það er í foreldrahúsum. Á þeim tíma stunduðu menn sjálfsþurftarbúskap, lifðu á því sem landið og sjórinn gáfu á hverjum tíma.

Þegar Ingvar var á þriðja ári fluttu foreldrar hans, Hólmgeir Árnason og Sigríður Sigurbjörnsdóttir til Flateyjar á Skjálfanda.

Það verður ekki annað sagt um Ingvar en að hann hafi fæðst inn í sjómannsfjölskyldu enda faðir hans útgerðarmaður og sjómaður góður til fjölda ára.

Enda fór svo að Ingvar fór sem liðléttingur aðeins 8 ára gamall með föður sínum til veiða frá Flatey á fjögurra tonna eikarbát sem bar nafnið Sævar TH 215. Báturinn var í eigu föður hans.

Þetta var á stríðsárunum, en þá fiskuðu menn í Færeyskar skútur sem fluttu aflann á Bretlandsmarkað.

Fjórir menn voru í áhöfn Sævars, liðléttingurinn Ingvar og þrír fullorðnir menn.

Ingvari var falinn mikil ábyrgð, hann stýrði bátnum meðan þeir fullorðnu gerðu að aflanum áður en hann var ferjaður yfir í Færeysku skúturnar. Þar sem Ingvar var eðlilega ekki hár í loftinu, þá 8 ára gamall, var línubala komið undir fætur hans svo hann sæi út um gluggana á stýrishúsinu og gæti fylgst með stöðu mála.

Þannig var það á þeim tíma, það þurftu allir, bæði börn og fullorðnir að vinna eins og þeirra geta leyfði til að sjá fjölskyldunni farborða.

Nokkru síðar eða þegar Ingvar var 11 ára gamall, var hann munstraður sem fullgildur sjómaður á Sævar TH. Gert var út frá Flatey á línu og handfæri og fiskaðist yfirleitt vel.

Ingvar þurfti einnig að sinna skyldunámi enda þá enn barn að aldri. Fyrstu árin var hann í Barnaskólanum í Flatey en fór síðar í Alþýðuskólann að Reykjum í Hrútafirði og Héraðsskólann að Laugum í Reykjadal þaðan sem hann útskrifaðist með Landspróf.

Áður en hann fór síðar í Stýrimannaskólann í Reykjavík, þá 20 ára gamall, fór hann á vertíðir á Stefáni Þór TH frá Húsavík með Maríusi Héðinssyni skipstjóra. Stefán Þór var gerður út á línu og síld á sumrin.

Ingvar útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum árið 1957.

Það eru margar góðar sögur til af Júlíusi Hafsteen sýslumanni á Húsavík enda Júlíus með merkilegri embættismönnum sem uppi hafa verið á Íslandi. Ingvar minnist þess að hann vantaði 6 mánuði  upp í þá 24 mánuði sem til þurfti að komast inn í  Stýrimannaskólann,  en á þeim tíma þurfti að vera skráður á stærri báta en 12 tonn til að fá siglingatímann skráðan.

Ingvar gekk því á fund sýslumanns og spurði hvort hann gæti skrifað upp á  þá 6 mánuði sem vantaði upp á. Sýslumaður leit snöggt á hann og svaraði um hæl, ,,Eigum við ekki að hafa þá 10 til öryggis góurinn!“

Ingvari voru því allir vegir færir og náði að útskrifast með stæl 1957 sem var mikið gæfuspor enda hefur hann verið einstaklega farsæll skipstjóri í gegnum tíðina.

Ingvar er sjómaður í húð og hár eins og segir í kvæðinu. Á heimili hans var fylgst með veðurfréttum og aflabrögðum eins og spennandi framhaldsþáttum. Lífið snérist um sjósókn.

Eftir námið voru allir vegir færir fyrir metnaðarfullan skipstjórnarmann. Hann réð sig sem stýrimann með Maríusi Héðinssyni á Helgu TH 7 frá Húsavík og var þar í tvö ár á línu og síld á sumrin.

Upp úr því fer hann á Svan ÞH 100 sem var 9 tonna eikarbátur í eigu föður hans. Ingvar tók við bátnum og var með hann í tvö ár og stundaði línu og handfæri. Þaðan fór Ingvar á Helga Flóvents ÞH 77 sem var gerður út á net og síldveiðar með Hreiðari Bjarnasyni skipstjóra.

Ingvar hafði alltaf dreymt um að eignast sinn eigin bát. Að sjálfsögðu lét hann verða að því með kaupum á bát frá Hrísey um áramótin 64/65. Bátinn sem fékk nafnið Svanur ÞH 100 og var um 18 tonn, keypti hann ásamt nokkrum félögum sínum frá Húsavík.

Útgerðarfyrirtækið fékk nafnið Vísir. Ingvar og einn af meðeigendum  hans Hörður Þórhallsson stóðu í brúnni til skiptis. Síðar átti Ingvar eftir að taka endanlega við bátnum þegar útgerðarfyrirtækið hóf fiskvinnslu í landi með útgerðinni. Hörður stjórnaði í landi og Ingvar sá um að fiska fyrir vinnsluna með úrvals áhöfn á hverjum tíma.

Vegna aukinna umsvifa var Svanurinn endurnýjaður og stærri bátur keyptur um 1970 sem var um 36 tonna eikarbátur. Áfram var gert út frá Húsavík á línu og net, það er fyrir utan eina vertíð þegar hafís lokaði flestum höfnum á Norðurlandi. Þá var ekkert annað að gera en að stunda sjósókn frá Suðurnesjunum.

Ingvar og félagar voru stórhuga og fjárfestu í öflugum 200 tonna stálbát árið 1977 sem fékk nafnið Sigþór ÞH 100. Fiskiskip sem þeir gátu gert út á línu, net, nót, fiski- og rækjutroll. Enda átti Sigþór eftir að reynast útgerðinni vel.

Útgerðarfyrirtækið Vísir gerði Sigþór lengst af út frá Húsavík en árið 1992 flutti útgerðin sig um set og gerði út frá Sandgerði, það er áður en útgerðin var seld árið 2002.

Þar með lauk sjómennsku og útgerð Ingvars Hólmgeirssonar frá Flatey. Ef frá er talin Björg skemmtibátur sem hann keypti strax árið eftir að hann seldi útgerðina og notar til að komast út í Flatey á Skjálfanda og á sjóstöng ásamt fjölskyldu og vinum. Sá bátur liggur í Húsavíkurhöfn.

Ingvar giftist ungur. Eiginkona hans var Björg Gunnarsdóttir sem nú er látin, blessuð sé minning hennar. Ingvar og Björg eignuðust tvær dætur, Jóhönnu og Sigríði. Sambýliskona Ingvars í dag er Særún Sigurgeirsdóttir. Ingvar hefur í gegnum tíðina verið virkur í félagsmálum ýmiskonar og má þar nefna 15 ára stjórnarsetu hans fyrir útgerðarmenn á Húsavík í stjórn Fiskiðjusamlags Húsavíkur, einnig var hann stjórnarformaður í Vélsmiðjunni Foss um nokkurra ára skeið og tvö ár í slippnum á Húsavík. Hann sat í stjórn LÍÚ í 8 ár og í stjórn Síldarútvegsnefndar í 6 ár.

Það er ekki hægt að skilja við lífshlaup Ingvars Hólmgeirssonar án þess að minnast á björgunarafrekið við Flatey á Skjálfanda þegar Hvassafellið strandaði að morgni 7. mars 1975. Þennan dag var ofsaveður, norðaustan stormur, líklega um 9 vindstig, haugasjór og blindhríð.

Vilhjálmur Pálsson þáverandi formaður björgunarsveitarinnar Garðars á Húsavík leitaði til Ingvars kl. 7 að morgni og bað hann að ferja björgunarsveitarmenn út í Flatey. Ingvar varð við kallinu enda vitað að 19 manns væru um borð í Hvassafellinu þar af þrjár eiginkonur skipsmanna. Ein af þeim var barnshafandi, komin sex mánuði á leið.

Ingvar fór með björgunarsveitarmenn frá Húsavík út í Flatey á Svani ÞH 100. Annar bátur lagði einnig úr höfn til björgunaraðgerða enda taldi Ingvar vera mikið öryggi fólgið í því að tveir bátar færu í björgunarleiðangurinn. Það var Jón Sör ÞH og þar stóð í brúnni reyndur skipstjóri, Pétur Olgeirsson.

Ljóst er að Björgunarsveitin Garðar og áhafnir þessara tveggja báta unnu þrekvirki við björgun á áhöfn Hvassafells við gríðarlega erfiðar aðstæður. Það skipti öllu máli að hafa tvo öfluga skipstjóra í brúnni á Jóni Sör og Svaninum sem komu björgunarsveitarmönnum á áfangastað þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður og tóku auk þess virkan þátt í björgunaraðgerðunum.

Þennan dag þurfti bæði kjark og þor til að sigla yfir Skjálfandann í brjáluðu veðri, hvað þá að ná landi í Flatey við þessar aðstæður enda innsiglingin að höfninni mjög erfið vegna brims.

Ingvar vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra fjölmörgu áhafnarmeðlima sem í gegnum árin hafa starfað með honum. Það er ekki síst þeim að þakka hversu vel og áfallalaus útgerðarreksturinn gekk í gegnum tíðina.

Ingvar Hólmgeirsson hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina. Það verður seint full þakkað.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viðar Sigurðsson

Viðar Sigurðsson er fæddur 25. október 1947 á Neskaupsstað. Sonur hjónanna Önnu Sigurjónsdóttur og Sigurðar Guðnasonar frá Karlsskála í Reyðarfirði.

Viðar er komin af mikilli sjómannsfjölskyldu enda stundaði faðir hans sjómennsku og útgerð um áratuga skeið frá Austurlandi.

Fyrstu árin var hugur Viðars ekki beint við sjóinn heldur tók hann þátt í sveitastörfum á Héraði þegar hann losnaði úr skóla á Neskaupstað á  vorin.

Á unglingsárunum hélt hann til sjós með föður sínum á Dröfn NK 31, þá 13 ára gamall. Dröfn NK stundaði handfæraveiðar við Langanesið yfir sumarið. Frá áramótum það ár var báturinn gerður út á vetrarvertíð frá Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum. Áhöfnin hélt til í bátnum sem var 35 tonna eikarbátur í eigu útgerðar sem faðir Viðars stóð að. Auk þess að stunda sjósókn á þessum tíma greip Viðar í síldarsöltun í landi á  Neskaupstað þrátt fyrir að vera mjög ungur að árum.

Upp úr því eða árið 1963 réð Viðar sig á vetrarvertíð á Gullfaxa NK sem var 150 tonna eikarbátur gerður út á línuveiðar, net og þorskanót út af Jökli. Í brúnni stóð Guðmundur Þorleifsson skipstjóri.

Á þessum tíma hélt Viðar sig við Austurlandið en átti síðar eftir að ráða sig á fiskiskip fyrir vestan, sunnan og norðan.

Eftir veruna á Gullfaxa NK réð Viðar sig til starfa hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað árið 1964. Þar var hann á Bjarti NK, 250 tonna stálbáti og Birtingi NK sem var um 300 tonna stálbátur. Þessi fiskiskip voru gerð út á síld og loðnu á þessum tíma bæði við Íslandsstrendur og eins við Hjaltlandseyjar.

Árið 1966 fór Viðar í Stýrimannaskólann í Reykjavík og útskrifast frá skólanum tveimur árum síðar.

Eftir stutta veru á Birtingi NK eftir útskriftina lagðist Viðar í víking og réð sig á fiskiskip sem voru gerð út frá Vestfjörðum. Það er Sóley ÍS og síðar Víking III ÍS en þessir stálbátar voru um 230 til 300 tonn.

Viðar stoppaði ekki lengi fyrir vestan á Ísafirði heldur færði sig á vesturlandið, það er á Akraness þar sem hann bjó í 12 ár. Á þeim tíma var hann á bátum sem gerðir voru út frá Akranesi og Reykjavík. Lengst af var hann á togaranum Ögra RE sem var í eigu Ögurvíkur í Reykjavík.

Eftir farsælan ferill á Ögra RE fór Viðar um tíma með frænda sínum og þeim mikla skipstjóra Magna Kristjánssyni á Hólmadrang ST sem var gerður út frá Hólmavík.

Viðar stoppaði stutt við þar, hann sá nýja heimahöfn við sjóndeildarhringinn, Húsavík á Skjálfanda. Þangað hélt hann árið 1983 og réð sig á togarann Júlíus Havsteen ÞH 1 sem hann var á til ársins 1997 þegar síðari Júlíus Havsteen ÞH 1 var seldur. Báðir togararnir, sem báru sama nafnið, voru gerðir út á fiski- og rækjutroll. Viðar var stýrimaður um borð og leysti Jóhann Gunnarsson skipstjóra af þegar á þurfti að halda. Jói og Viðar náðu einstaklega vel saman og fiskuðu vel þau 13 ár sem þeir voru saman til sjós á togurum frá Húsavík.

Eftir farsælan ferill á Júlíusi Havsteen ÞH tóku við ár þar sem Viðar tók að sér afleysingar um borð í fiskiskipum enda eftirsóttur skipstjórnarmaður. Nefna má skip eins og Hólmaborgina SU, Hólmatind SU, Bjart NK, Sólbak EA og Kaldbak EA. Um borð í Sólbak og Kaldbak hitti hann fyrir Jóhann Gunnarsson skipstjóra sem Viðar hafði áður verið með um borð í Júlíusi Havsteen ÞH.

Upp úr 2010 urðu tímamót hjá Viðari þegar hann hætti um borð í Kaldbak EA og ákvað að snúa sér að öðrum verkefnum. Hann fór og verslaði sér svokallaðan hraðfiskibát sem hann skýrði í höfuðið á konunni sinni. Báturinn fékk nafnið Elín ÞH 7. Frá árinu 2012 hefur Viðar stundað strandveiðar frá Húsavík auk þess að starfa um tíma á bátum Norðursiglingar og Gentle Giants við hvalaskoðun.

Viðar er því ekki alveg hættur sjómennsku. Þegar gefur siglir hann út úr Húsavíkurhöfn líkt og félagi hans til fjölda ára, Jóhann Gunnarsson, sem stundar strandveiðar líkt og Viðar Sigurðsson.

Þeir eiga það báðir sameiginlegt að vera miklir fiskimenn og hugur þeirra beggja leitar á fengsæl mið á Skjálfanda og með austur ströndinni.

Viðar hefur á sínum langa sjómannsferli gengt flestum störfum um borð í fiskiskipum, þó lengst af sem stýrimaður auk skipstjórnar.

Viðar hefur einnig verið farsæl sjómaður og komist í gegnum marga brimskaflana óskaddaður sem og þær áhafnir sem hann hefur borið ábyrgð á til sjós í gegnum áratugina. Fyrir það ber að þakka.

Viðar er giftur  Elínu Björk Hartmannsdóttur og eiga þau tvo syni. Fyrir áttu þau fjóra syni úr fyrri samböndum. Viðar þrjá syni og Elín einn son.

Þau búa fallegu heimili í Brúnagerði á Húsavík með góðu útsýni yfir Húsavík, Húsavíkurhöfn og Skjálfanda.

Viðar hefur komið fyrir öflugum sjónauka í stofunni heima þar sem hann getur fylgist með umferðinni um höfnina enda áhugamál hans að fylgjast með ferðum báta og aflabrögðum. Viðar er sannur sjómaður og maður góður.

Viðar Sigurðsson hafðu líkt og Ingvar kærar þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í  gegnum tíðina.

Ég vil biðja Viðar að koma hér upp ásamt eiginkonu og veita viðtöku sérstakri orðu þér til heiðurs. Gjörið svo vel, Viðar og Elín.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við látum hér fylgja með mynd frá heiðrun Ingvars Hólmgeirssonar sem fram fór í Garðabæ fyrir helgina þar sem Ingvar komst ekki til Húsavíkur í dag. Með honum á myndinni eru vinir og vandamenn sem heiðruðu þennan merka sjómann með nærveru sinni. Þau eru auk Ingvars, Þorsteinn Ingi Sigfússon, Særún Sigurgeirsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir, Daníel Gunnarsson og Halldóra Hermannsdóttir.

 

 

 

Deila á