Helgin hjá starfsmönnum Skrifstofu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum fer í að skrifa og ganga frá Fréttabréfi sem er væntanlegt til lesenda síðar í þessum mánuði. Að venju verður blaðið fullt af fróðleik og upplýsingum úr starfi stéttarfélaganna sem aldrei hefur verið eins öflugt og um þessar mundir. Starfi félaganna síðustu vikurnar verður gerð góð skil auk þess sem skrifað verður um orlofskosti félaganna sumarið 2017 sem verða sambærilegir milli ára auk þess sem sagt verður frá ævintýraferð í Borgarfjörð eystri sem félagsmönnum stendur til boða ásamt gestum undir leiðsögn Óskar Helgadóttur varaformanns Framsýnar sem klikkar ekki sem fararstjóri. Til viðbótar má geta þess að hún er ættuð að austan og þekkir því vel til á Austurlandinu. Þá má geta þess að ákveðið hefur verið að hafa sama verð á orlofshúsunum til félagsmanna milli ára eða kr. 26.000.
Formaður Framsýnar tók sér frí um síðustu helgi og fór í heimsókn til Leeds á Englandi. Þar hitti hann meðal annars félaga sinn og fyrrum landsliðsmarkmann Englands, Robert Green. Hann á tólf landsleiki fyrir England á ferilskránni, þess má geta að hann byrjaði sem fyrsti markmaður Englands á HM 2010. Nú er alvaran hins vegar tekin við og formaðurinn kominn heim og sestur við skriftir enda mikilvægt að koma Fréttabréfi stéttarfélaganna út á næstu dögum.