Baráttuhugur meðal sjómanna á Húsavík – slitnar upp úr á morgun?

Sjómannadeild Framsýnar stóð fyrir fjölmennum fundi um stöðuna í kjaramálum sjómanna á föstudagskvöldið. Formaður félagsins, Aðalsteinn Árni Baldursson og formaður Sjómannadeildarinnar, Jakob Gunnar Hjaltalín, fóru yfir stöðuna og þau tilboð sem gengið hafa milli samningsaðila, það er Sjómannasambandsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi til lausnar á kjaradeilunni. Í  máli þeirra kom fram að staðan væri mjög alvarleg þar sem útgerðarmenn hafa ekki verið viljugir til að ganga að kröfum sjómanna þrátt fyrir góða afkomu greinarinnar.

Þrjú atriði hafa þokast áfram, það er kostnaðarþátttaka útgerðarinnar er varðar fæðismál, hlífðarfatnað og netkostnað sjómanna um borð í fiskiskipum. Útgerðarmenn hafa hins vegar hafnað alfarið breytingum á olíuviðmiðinu og bótum vegna afnáms  á sjómannaafslættinum. Þá hefur kröfum sjómanna um breytingar á nýsmíðaálaginu verið vísað útaf borðinu og eru þær því ekki í endanlegum tillögum sjómanna til lausnar kjaradeilunni.

Útgerðarmenn hafa lagt fram tillögur að  breytingum  á samningnum sem sjómenn taka ekki vel í enda um að ræða skerðingar á núgildandi kjarasamningi. Sérstaklega varðandi breytingar á veikinda- og slysarétti sjómanna sem og aukinni þátttöku sjómanna í slysatryggingum útgerðarinnar.

Eftir miklar og góðar umræður samþykktu sjómenn innan Framsýnar að standa fastir á þeim tveimur atriðum sem standa útaf. Leynileg atkvæðagreiðsla fór fram á fundinum.

Niðurstaðan var skýr, 100%  þeirra sem tóku afstöðu sögðust ekki sætta sig við annað en að gengið yrði að kröfum sjómanna varðandi olíuverðsmyndunina og bætur vegna afnáms  sjómannaafsláttarins kæmu til. Þá mótmæla sjómenn harðlega hugmyndum útgerðarinnar um aukna þátttöku sjómanna í slysatryggingum útgerðarinnar og að breytingar verði gerðar á veikindarétti sjómanna.  Niðurstaðan getur ekki verið skýrari, sjómenn eru tilbúnir að standa og falla með framlögðum kröfum Sjómannasambandsins.

Skoðunum sjómanna innan Sjómannadeildar Framsýnar hefur verið komið á framfæri við samninganefnd Sjómannasambands Íslands og var það gert í dag.

Á morgun, mánudag, hefur verið boðað til samningafundar í deilunni hjá Ríkissáttasemjara. Miðað við viðbrögð sjómanna á Húsavík og víða um land eru miklar líkur á því að upp úr viðræðum slitni á morgun nema útgerðarmenn komi að borðinu með samningsviljann að vopni. Því miður er ekkert sem bendir til þess í augnablikinu.

batar080002

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila sjómanna og útgerðarmanna harðnar með hverjum degi sem líður. Svo virðist sem útgerðarmenn bíði eftir því að sett verði lög á deiluna í boði nýrrar ríkistjórnar þrátt fyrir yfirlýsingar þeirra um annað.

 

Deila á