Fundur ungs fólks innan SGS, haldinn 1. og 2. júní 2016

Starfsgreinasambandið boðaði til fundar ungs fólks í tengslum við útvíkkaðan formannafund sambandsins í Grindavík í júní. Aðildarfélögum bauðst að senda tvo fulltrúa undir þrítugu og voru félögin hvött til þess að hafa fulltrúana af sitt hvoru kyni. Framsýn tók að sjálfsögðu þátt í fundinum og sendi fulltrúa suður.

Fundurinn var vel skipulagður af starfsmönnum SGS en tilgangur hans var annarsvegar uppfræðsla og þjálfun ungs fólks innan sambandsins og svo hinsvegar að útbúa vettvang fyrir ungt fólk að koma saman og bera saman bækur sínar þegar kemur að þeirra áherslum í kjaramálum.

Fræðsluhluti fundarins var, svo vitnað sé í þátttakendur, “snilld”. Mikill metnaður var innan SGS að fá hæfa og virta fyrirlesara innan síns sviðs og stóðu þeir svo sannarlega fyrir sínu. Ungliðarnir, sem voru á aldrinum 21-30 ára og allir virkir félagar í sínum stéttafélögum, fengu á fundinum þjálfun og fræðslu í samningatækni og menningarvitund, fjölmiðlafærni og almannatengslum, fundarsköpum og fundarsiðfræði og síðast en ekki síst mættu stjórnarmeðlimir ASÍ-ung til þess að vekja athygli á tækifærum og áhrifum ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ungliðarnir létu ekki á sér standa þegar kom að umræðu um kjaramál og stöðu ungs fólks innan hreyfingarinnar. Mátti greina mikla ólgu og reiði yfir þeim mistökum sem gerð voru við samþykkt síðustu kjarasamninga þegar jafnt vinnuframlag ungs fólks var gjaldfellt og kjör yngstu meðlima hreyfingarinnar versnuðu í samanburði við þá sem eldri eru. Samhljómur var um að sú þróun væri með öllu óskiljanleg og algjörlega taktlaust að hreyfing sem berst fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna skyldi samþykkja að fórna réttindum og virðingu sinna yngstu skjólstæðinga fyrir flottar fyrirsagnir og slagorð um “þrjúhundruðþúsundkallinn” sem þannig var byggður á brotnum grunni. Það þótti til marks um stöðu ungs fólks innan hreyfingarinnar hvernig vinnuframlag ungmenna var lítils metið og allir sammála um gríðarlegt mikilvægi þess að efla og styrkja starf og þátttöku ungs fólks í hreyfingunni.

Ungt fólk er þó framsýnt og þegar kom að því í lok dagskrár að kynna starf og umræður fundarins fyrir formönnum og varaformönnum aðildarfélaga þá var lítið um upphrópanir heldur var fundargestum gert ljóst að ungt fólk sætti sig ekki við slíka þróun heldur treysti forystu hreyfingarinnar til þess að setja það í forgang að leiðrétta þessi mistök í samvinnu við ungt félagsfólk. Forysta hreyfingarinnar var hvött til þess að innleiða ungt fólk frekar í starfið, breyta nýjum og öflugri aðferðum við að virkja og fræða ungt fólk auk þess að leggja meiri áherslu á félagsstörf og hópefli innan sinna félaga. Mikill en vannýttur mannauður ungs fólks leynist innan verkalýðshreyfingarinnar og geta einstök aðildarfélög verið óhrædd við að virkja hann.
Öllu fylgdi þessu síðan heljarinnar hópefli, góður félagsskapur og einstök gestrisni verkalýðsfélags Grindavíkur. Mikil ánægja var með fundinn og allir sammála um mikilvægi þess að halda árlega fundi ungs fólks innan SGS til þess að efla þátttöku og vægi ungs fólks, hreyfingunni til heilla.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Framsýn átti frábæra fulltrúa á fundinum, hér eru þau Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir og Aðalbjörn Jóhannsson fyrir utan fundarstaðinn í Grindavík.
Deila á