Yfirlýsing Kára Arnórs Kárasonar vegna starfsloka laugardaginn 23. apríl 2016.
Ég hef gert stjórn lífeyrissjóðsins Stapa grein fyrir þeirri ákvörðun minni að hætta störfum hjá sjóðnum og mun í framhaldinu óska eftir að samráði við hana um fyrirkomulag starfsloka minna. Ástæðu uppsagnar minnar rek ég í meðfylgjandi yfirlýsingu og hef ég engu við hana að bæta.
Fyrir skömmu fékk ég upphringingu frá Kastljósi þar sem mér var tjáð að nafn mitt sé í hinum svokölluðu Panamaskjölum og tengist þar tveimur félögum. Annars vegar er félag sem stofnað er í Lúxembúrg árið 1999 af Kaupþingi. Þar gaf ég starfsmönnum Kaupþings fullt og óskorað umboð til að eiga viðskipti fyrir hönd félagsins. Eftir því sem mér er tjáð virðist félagið hafa starfað í 3 ár en þá hafi því verið lokað. Sennilega hafa fjárfestingar þess ekki gengið vel. Raunar hef ég engin gögn um viðskipti þessa félags. Kastljós hefur einhver gögn um félagið en vill ekki veita mér aðgang að þeim. Þótt erfitt sé að fullyrða um atburði sem áttu sér stað fyrir 16-17 árum tel ég samt nokkuð víst að ég lagði aldrei neina fjármuni í þetta félag og fékk enga fjármuni greidda frá því. Hitt félagið var stofnað af MP banka fyrir mína hönd árið 2004. Ég sé í gögnum að ég mun hafa greitt 305.200 kr. fyrir stofnun þess félags. Félagið var aldrei notað. Það var talið fram á framtölum á verðmæti stofnkostnaðar og afskrifað þremur árum síðar, sem tapað fé. Ég hafði því engan ávinning af þessum félögum og þau tengjast engum skattaundanskotum.
Eflaust bar mér að tilkynna um tilvist þessara félaga til minna yfirmanna. Um er að ræða löngu liðna atburði, sem erfitt er að fullyrða um, en ég tel þó víst að svo hafi ekki verið gert. Því má segja að ég hafi að því leyti ekki uppfyllt starfskyldur mínar. Ítarlegar reglur eru nú um hagsmunaskráningu og vel fylgst með að eftir þeim sé farið. Því var ekki til að dreifa fyrir 12-17 árum síðan.
Það voru mörg gylliboð í gangi hér á Íslandi á áratugnum fyrir bankahrunið. Á þessu má sjá að ég hef ekki verið ónæmur fyrir slíku þótt í þessum tilfellum væru það ekki ferðir til fjár. Ég er ekki stoltur af því að hafa látið glepjast af slíkum boðum. Ég vil þó taka fram að með því er ég ekki afsaka sjálfan mig enda við engan annan að sakast í þessu efni. Ég ber sjálfur ábyrgð á mínum gjörðum.
Þótt eflaust megi deila um hversu alvarlegir þeir hlutir eru sem ég hef hér lýst, þá met ég þá umræðu sem nú er í samfélaginu um aflandsfélög og skattaskjól þannig að ekki sé boðlegt að maður sem er í minni stöðu, þ.e. forstöðumaður aðila sem varslar lífeyrissparnað fyrir almenning, hafi tengst slíkum félögum. Skiptir þá engu máli þótt langt sé um liðið, hvort þetta var löglegt eða ólöglegt eða hvort viðkomandi hafi hagnast á slíkum viðskiptum eða ekki. Í ljósi þessa hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Það er að mínu mati eina leiðin sem mér er fær til að axla ábyrgð, enda tengist vinnuveitandi minn ekki á neinn hátt þessum málum.
Ég er leiður yfir þessu máli öllu og vil ég biðja fjölskyldu mína, vini, samstarfsfólk og kollega afsökunar á þeim óþægindum sem þau munu eflaust verða fyrir vegna umræðu um þennan dómgreindarbrest minn. Að lokum vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef starfað með í gegnum tíðina fyrir samstarfið og óska því góðs gengis í framtíðinni.
Kári Arnór Kárason