Fulltrúar stéttarfélaganna heimsóttu Fosshótel Húsavík á dögunum og skoðuðu framkvæmdir við viðbyggingu hótelsins. Framkvæmdir hafa staðið yfir í um eitt og hálft ár. Óhætt er að segja að um mikla breytingu sé að ræða. Framkvæmdin mun auk þess hafa í för með sér talsvert aukna þjónustu fyrir svæðið þar sem aðstaða til ráðstefnu- og fundarhalda verður fyrsta flokks eftir að breytingum er lokið. Ólafur Sæmundsson er byggingarstjóri verksins en hann kynnti framkvæmdirnar fyrir hönd verktakans. Ólafur segir að stefnt sé að opnun hótelsins um eða eftir miðjan maí.
Ekki er laust við að sérstakt hafi verið að labba um þessa byggingu, sérstaklega þann hluta hússins sem eldri er, svo sem gamla borðsalinn sem nú er gjörbreyttur og að sjálfsögðu „Rauða torgið″ sem fáir munu kannast við í núverandi mynd. Þá var hægt að upplifa útsýni frá sjónarhorni sem jafnvel rótgrónustu Húsavíkingar munu ekki kannast við.