Atkvæðagreiðslu meðal launþega á almenna vinnumarkaðinum um nýja kjarasamninginn milli aðildarfélaga ASÍ og SA líkur í dag kl. 12:00. Um er að ræða sameiginlega atkvæðagreiðslu meðal þessara félaga innan Alþýðusambandsins.
Samningurinn tekur til þeirra almennu kjarasamninga sem aðildarfélög ASÍ gerðu frá maí til september 2015. Um 76 þúsund félagsmenn eru á kjörskrá. Í fyrradag voru rúmlega 10 þúsund félagsmenn stéttarfélaganna búnir að kjósa sem hlýtur að teljast mjög lélegt. Ekki er ólíklegt að um 20% félagsmanna kjósi í heildina en það mun skýrast síðar í dag.
Verði samningurinn samþykktur í yfirstandandi atkvæðagreiðslu gildir hann frá 1. janúar 2016 til 31. desember 2018. Samningurinn byggir á rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 og bókun um jöfnun lífeyrisréttinda frá 5. maí 2011. Þá er skelfilegt til þess að vita að unnið er hörðum höndum að því að innleiða svokallað Salek samkomulag sem veit ekki á gott fyrir tekjulægsta fólkið eins og þessi kjarasamningur ber með sér.
Það jákvæða við kjarasamninginn er að framlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna aukast á samningstímanum úr 8% í 11,5%, það er í áföngum:
1. júlí 2016 um 0,5% og verður 8,5%
1. júlí 2017 um 1,5% og verður 10,0%
1. júlí 2018 um 1,5% og verður 11,5%
Í boði verður að skipta auka framlaginu milli séreignar og sameignar sjóðfélaga. Því miður var ekki gengið frá skiptingunni í kjarasamningnum milli þessara tveggja kerfa sem er ámælisvert. Eðlilegra hefði verið að félagsmenn vissu um fyrirkomulagið áður en þeir greiddu atkvæði um samninginn þar sem mjög skiptar skoðanir eru innan verkalýðshreyfingarinnar um hvernig ráðstafa eigi viðbótarframlaginu í lífeyrissjóði. Það mun hins vegar skýrast á næstu mánuðum, það er eftir afgreiðslu samningsins.
Þessar breytingar á framlögum í lífeyrissjóði starfsmanna eru í áttina en því miður næst ekki fullur jöfnuður á við opinbera starfsmenn þar sem lífeyrissjóður þeirra er ríkistryggður og verður því áfram mun betri. Vissulega er þetta skref í áttina en ekki fullnægjandi því miður.
Það neikvæða við samninginn er að þeir lægst launuðu eru skyldir eftir hvað varðar launaleiðréttingar. Þannig hækka þeir félagsmenn stéttarfélaganna innan Starfsgreinasambands Íslands sem eru í lægstu launaflokkunum s.s. fólk í ferðaþjónustu ekki við þennan samning umfram áður samþykktar hækkanir. Vissulega kemur öllum til góða að launahækkanir sem koma áttu til framkvæmda 1. maí 2016 verður flýtt til 1. janúar 2016.
Millitekjufólk og starfsfólk með hærri tekjur fær hins vegar viðbótarhækkanir umfram áður umsamdar hækkanir. Í stað þess að fá 5,5% hækkun 1. maí 2016 kemur til 6,2% hækkun frá 1. janúar 2016. Þá kemur til 4,5% hækkun 1. maí 2017 í stað 3% hækkunar frá sama tíma. Að lokum kemur 3% hækkun til 1. maí 2018 í stað 2% frá sama tíma. Þessir hópar fá því í heildina um 3,2% í hækkun umfram áður umsamdar launahækkanir + breytingar á framlögum atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Af hverju ekki var talin ástæða til að leiðrétta kjör þeirra lægst launuðu til samræmis við aðra hópa er óskiljanlegt með öllu.
Í dag mun svo skýrast hvort kjarasamningurinn verður samþykktur eða ekki. Því miður hefur verið lítil umræða um samninginn og mæting á kynningarfundi hjá aðildarfélögum Alþýðusambandsins hefur á flestum stöðum verið mjög léleg. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af þessu áhugaleysi ekki síst þar sem lífsafkoma fólks byggir á framfærslu fólks í gegnum launaumslagið.