Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, var með hugvekju í Húsavíkurkirkju í dag kl 18:00. Hér má lesa ræðu formannsins:
Ágætu kirkjugestir!
Þegar ég stend hér koma upp í hugann ljúfar minningar þegar ég ungur að árum sat uppi á kirkjuloftinu á aðfangadagskvöld og horfði yfir söfnuðinn.
Það var föst regla á mínu æskuheimili að pabbi færi með okkur systkinin til kirkju til að meðtaka boðskap jólanna. Á meðan kláraði móðir okkar að undirbúa jólakvöldverðinn.
Ég minnist þess hvað fólki leið vel í kirkjunni sem oftast var fullsetinn og kirkjukórinn söng eins og enginn væri morgundagurinn enda alltaf verið mikil sómi af kórnum.
Ég og Ómar fósturbróður minn, þá átta og tíu ára gamlir, áttum ekki auðvelt með að sitja aðgerðarlausir í kirkjunni á þessum tíma vitandi af öllum jólapökkunum heima. Við fundum því upp leik til að stytta okkur biðina.
Mikilvægt var að pabbi næði fremsta bekknum á hægra kirkjuloftinu svo við gætum séð vel yfir kirkjuskipið, reyndar náðum við varla upp yfir handriðið til að sjá niður.
Þannig var að nokkrir gestir áttu það til að gleyma sér aðeins í afslöppuðu umhverfinu. Leikur okkar bræðra fólst í því að við veðjuðum leikaramyndum á þann kirkjugest sem fyrstur yrði til að sofna, en leikaramyndir voru mjög vinsælar á þessum tíma meðal barna og unglinga.
Reyndar fór það svo að við Ómar skiptumst á að vinna. Okkar athugun leiddi í ljós að gamlir verkamenn og sjómenn voru fljótastir að sofna.
Ég er ekki frá því að þetta sé fyrsta og jafnvel eina rannsóknin sem gerð hefur verið á Íslandi á svefnvenjum fólks í kirkjum landsins, gerð af átta og tíu ára guttum.
Við áramót er full ástæða til að minnast liðina tíma, halda veglega hátíð og gleðjast með fjölskyldunni og þeim sem standa manni næst.
Vissulega blandast inn í gleðina sorg og söknuður því ekkert okkar kemst í gegnum gangverk lífsins án þess að þurfa að takast á við lífið sjálft, gleðina, sorgina, veikindi og missi ástvina. Við erum öll jöfn fyrir Guði.
Við áramót er okkur einnig tamt að líta yfir farinn veg hvað okkar einkalíf varðar, af sumu getum við verið stolt af meðan við getum gert mun betur á öðrum sviðum.
Fullkomnun er ekki til, það er okkar að læra af fortíðinni, hún er reynsla sem nýta má til að gera hlutina betur.
Hvað framtíðin ber í skauti sér er hins vegar óráðin gáta. Framtíðin byggir á óvissu, áskorunum og fyrirheitum um nýjar upplifanir og möguleika, hún vekur upp forvitni og væntingar, hún er forsenda framfara og tækifæra fyrir alla.
Eitt er víst að það er í okkar eðli, okkar menningu að vilja gera betur, upplifa fleira og ná lengra í lífinu á okkar forsendum með því ekki síst að viðhalda æskunni í sálinni.
Ég er sannfærður um að við eigum það sameiginlegt að finnast við oft vera yngri en við erum í raun og veru. Upp í hugann kemur dæmisaga;
Þannig er að ég hef í fjölda mörg ár farið í göngur á haustin.
Hér á árum áður hljóp maður þindarlaus upp um fjöll og firnindi eftir fé sem koma þurfti til byggða. Í því fólst mikil áskorun, það að gefast ekki upp og fanga féð.
Í dag heldur gamli smalinn sig á jafnsléttu og horfir upp til fjallstindana. Hugurinn leitar upp snarbrattar hlíðarnar, tilbúinn að takast á við nýjar áskoranir eins og tvítugur væri, nú 55 ára.
En hugurinn endurspeglar ekki ástand líkamans sem er ekki í sama standi og hann var fyrir 35 árum. Nú er komið að þeim yngri að takast á við fjallstindana, þannig er gangur lífsins.
Ekki er vert að sýta það að hafa ekki lengur burði til að gera það sem maður áður gat. Lífið hefur meira gildi en það.
Höfum í huga að það auðnast ekki öllum að ná þeim aldri sem við höfum náð. Hver mínúta, dagur, mánuður og ár í okkar lífi skipta okkur því miklu máli. Við skulum virða það og nota tímann til góðra verka meðan guð leyfir.
Á okkar stuttu ævi höfum við gengið í gegnum miklar samfélagslegar breytingar bæði til góðs og ills. Hvað okkar svæði varðar í Þingeyjarsýslum, þá hefur fólki fækkað jafnt og þétt eða um 18% frá árinu 1998. Hér er ég að tala um Norðurþing, Tjörneshrepp, Þingeyjarsveit og Skútustaðahrepp.
Þjónustustigið hefur farið niður á við og störfum fækkað.
Við höfum fengið stóra skelli í atvinnumálum líkt og þegar útgerðarfyrirtækið Vísir hætti starfsemi á Húsavík og þegar Kaupfélag Þingeyinga fór í þrot hér á árum áður og hætti starfsemi.
Fram að þeim tíma hafði Kaupfélagið verið einskonar hjarta í atvinnulífi Þingeyinga og veitt fjölda fólks atvinnu auk þess sem það stóð dyggilega við bakið á æskulýðs- og íþróttastarfi í héraðinu.
Unga fólkið hefur á síðustu áratugum yfirgefið heimahagana og haldið á vit ævintýra og til að hefja framhaldsnám. Flest þeirra hafa ekki séð tækifæri í því að snúa aftur heim að loknu námi þar sem störf við þeirra hæfi hafa ekki boðist.
Þessi staðreynd liggur fyrir enda hefur samfélagið í landnámi Garðars verið að eldast ár frá ári.
En það birtir við sólarupprás. Þessir tímar eru að baki og því ber að fagna. Framundan eru miklir uppgangstímar á Húsavík og áhrifa þeirra kemur til með að gæta mun víðar en í Þingeyjarsýslum.
Við Þingeyingar sitjum á auðlind til góðra verka, ekki síst mannauði, menningu, orku og náttúrufegurð. Það er okkar að hlúa að þessum þáttum svo þeir beri ávöxt líkt og Jesús segir í guðspjalli dagsins:
„Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“
Guðspjallið á vel við í dag. Við höfum beðið lengi, sannfærð um að sá dagur kæmi að uppbygging hæfist hér á Húsavík. Beðið mörg mögur ár, en undirbúið jarðveginn vel, borið í hann áburð og beðið eftir að fræið bæri ávöxt. Nú er sá tími kominn.
Þýska fyrirtækið PPC hefur hafið framkvæmdir við byggingu á kísilmálmverksmiðju á Bakka sem veita mun um 150 manns vinnu þegar hún verður komin í fullan gang. Með afleiddum störfum erum við að tala um 250 ný störf á ýmsum sviðum.
Verksmiðjunni fylgja einnig aðrar umfangsmiklar framkvæmdir s.s. á Þeistareykjum við öflun á orku, laga þarf Húsavíkurhöfn svo hægt verði að taka á móti stærri skipum, leggja þarf 63 kílómetra háspennulínu frá Kröflu að Bakka með tengingu við Þeistareyki, ráðast þarf í vega- og gangnagerð í gegnum Húsavíkurhöfða að iðnaðarlóðunum á Bakka.
Þá liggur fyrir að farið verður í frekari boranir á Þeistareykjum næsta sumar sem munu taka um tvö ár en bora á sjö til tíu holur samkvæmt útboði.
Ekki er ólíklegt að þær framkvæmdir sem tengjast uppbyggingunni á Bakka kosti í heildina um 80 milljarða. Við erum að tala um stórar tölur og að uppbyggingunni komi um 800 manns. Framkvæmdatíminn verður rúmlega tvö ár, það verður því mikið undir á Húsavík, sérstaklega á árunum 2016 og 2017 og fram á árið 2018.
Í fyrsta skiptið frá árinu 1998 er íbúafjölgun á Húsavík milli ára. Samkvæmt fyrirliggjandi tölum fluttu 40 fleiri einstaklingar til Húsavíkur en frá staðnum.
Ungt velmenntað fjölskyldufólk er áberandi í þessum hópi. Því er spáð að íbúum á Húsavíkursvæðinu fjölgi á næstu árum um 350 sem kallar á um 100 nýjar íbúðir.
Sjá má að innviðirnir eru þegar að styrkjast með fjölgun starfa í þjónustu- og byggingariðnaði og þá fjölgar afleiddum störfum stöðugt.
Á sama tíma standa öflug framleiðslufyrirtæki á svæðinu stert en fram að þessu hafa sjávarútvegur og landbúnaður auk ferðaþjónustu verið megin stoðir atvinnulífsins á svæðinu.
Stór kaupskip sigla aftur fulllestuð til og frá Húsavíkurhöfn. Flugfélagið Ernir hefur fjárfest í nýrri flugvél til að sinna auknu áætlunarflugi til Húsavíkur, sem eru mikil lífsgæði og farþegafjöldinn með flugfélaginu hefur aldrei verið meiri eða tæplega 12.000 á árinu 2015.
Forsvarsmenn flugfélagsins spá verulegri aukningu á farþegafjölda á næsta ári er tengist framkvæmdunum á Húsavíkursvæðinu auk aukinna umsvifa í ferðaþjónustunni.
Já, ferðaþjónustan eflist og eflist, enda búa Þingeyingar við eina fallegustu umgjörð náttúrufegurðar á Íslandi. Á árinu 2014 heimsóttu um 157 þúsund erlendir gestir Húsavík. Ekki liggja fyrir endanlegar tölur fyrir árið 2015 en ljóst er að ferðamönnum fjölgaði umtalsvert á milli ára.
Öflugt atvinnulíf eflir menningar- og listalíf jafnframt því að vera mikilvæg stoð undir æskulýðs og íþróttastarf. Höfum það einnig í huga að fækkað hefur umtalsvert í skólum á Húsavík, það er á öllum skólastigum.
Athuganir sem gerðar hafa verið á áhrifum uppbyggingarinnar á Bakka gefa góðar vísbendingar um að nemendum muni fjölga á öllum skólastigum sem er vel enda mikilvægt að nýta betur þær fasteignir og þann mannauð sem er til staðar.
Að sjálfsögðu er eðlilegt að skiptar skoðanir geti verið um þær miklu breytingar sem framundan eru á okkar samfélagi bæði stórar og smáar.
Svo hefur alla tíð verið og verður áfram. En við skulum halda umræðunni málefnalegri og án sleggjudóma.
Til er skemmtileg saga af því þegar Kaupfélag Þingeyinga tók til umræðu á fundi að nú yrði mjólkinni ekki lengur ausið úr brúsum í ílát kaupenda, komin væru tæki til gerilsneyðingar og síðan yrði tapað á flöskur. Við það yrði mjólkin nokkrum aurum dýrari en áður. Hreinlætiskröfum yrði að sinna.
Þá tók til máls Þórður Markússon, aldinn orðinn að árum og hraustmenni mikið. Hafði hann oft unnið óþrifaverk og því verið óhreinn á stundum. Taldi hann að hreinlæti væri of dýru verði keypt. Ekki væri hann kvillasamur og þó fáir étið meiri skít um dagana. Enda væru sum lyf unnin úr skít og myglu og fyndust sér þeir milliliðir óþarfir. Hagyrðingurinn Egill Jónasson var nærstaddur er Þórður flutti mál sitt og kvað:
Læknarnir bregðast lýðsins vonum,
lyfin þeir brugga einskis nýt
í stað þess að segja sjúklingonum
að sitja heima og éta skít.
Í hreinlætisátt þó heimur sæki,
hefur hann litla sigurvon.
Enginn gerir svo grimmsterk tæki
að gerilsneyði Þórð Markússon.
Svona voru ágreiningsmálin leyst á sínum tíma þegar menn deildu um framfarir í sveitarfélaginu.
Ágætu gestir!
Höfum í huga að ástvinir okkar sem nú eru fallnir frá ruddu brautina og veittu okkur hlýju og kærleik meðan þeirra naut við auk þess að gefa okkur gott veganesti inn í lífið, sem okkur ber að virða.
Við skulum einnig sameinast um að senda þeim sem takast á við erfið veikindi, sorg eða aðra erfiðleika hlýjar kveðjur því ekkert nærir sálina betur en væntumþykja og jákvæðni í stað niðurrifs og neikvæðar umræðu um menn og málefni.
Við skulum sameinast um að skora á ráðamenn þjóðarinnar, hverjir sem þeir eru, að tryggja þeim sem síst standa viðunandi framfærslu svo þeir þurfi ekki að búa við sára fátækt. Við Íslendingar eigum nóg til skiptana.
Eins og ég hef komið inn á, geng ég fullur tilhlökkunar inn í nýja tíma, tíma mikillar uppbyggingar á Húsavík.
Árið 2016 verður gott ár fyrir okkur Þingeyinga. Við skulum fara heim og hvíla okkur fyrir átökin. Tækifærin eru handan við hornið, tækifæri sem við skulum nýta vel, okkur og samfélaginu til hagsbóta.
Vissulega fylgja miklum framkvæmdum ákveðnar ógnanir en það er okkar að sigrast á þeim og takast á við þau vandamál sem upp kunna að koma. Notum orkuna í okkur sjálfum til þess og góðra verka.
Síðast en ekki síst; Berum virðingu fyrir okkur sjálfum, fortíðinni og framtíðinni sem bíður okkar á nýju ári.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári. Megi guð varðveita okkur um ókomna tíð.
Aðalsteinn Árni Baldursson