Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikil átök og ágreiningur hefur verið á vinnumarkaði allt s.l. ár, reyndar svo mikill að árið 2015 verður trúlega meðal þeirra ára með flesta tapaða vinnudaga vegna verkfalla. Það hefur verið mat forystumanna Alþýðusambandsins að afar mikilvægt sé að ná sátt um nýja nálgun og nýja leið í kjaramálum. Við verðum að finna leið til að íslenskir launamenn geti, líkt og frændur okkar á hinum Norðurlöndunum, búið við meiri stöðugleika bæði í félagslegum og efnahagslegum skilningi, þar sem kaupmáttur launa aukist jafnt og þétt á grundvelli lágrar verðbólgu, lægri vaxta og stöðugs gengis. Þar sem velferðarkerfið sé af þeim gæðum og því umfangi að almenningur geti treyst á nauðsynlega aðstoð.
Á undanförnum misserum hafa forystumenn heildarsamtaka launafólks og atvinnurekenda setið á rökstólum til að freista þess að leggja grunn að slíkri sameiginlegri leið. Ábyrgð aðila vinnumarkaðarins á því að endurskoða og endurnýja samningalíkanið er mikil og ljóst að mikill vilji er til þess að ná þessu saman, að láta þetta takast. Með nýgerðu rammasamkomulagi ASÍ og BSRB við atvinnurekendur á almennum og opinberum vinnumarkaði hefur verið lagður grunnur að ákveðnum meginútlínum að nýju samningalíkani og er það von þessara samtaka að BHM og KÍ nái samstöðu innan sinna raða um beina þátttöku í þessu mikilvæga starfi.
Á næstu mánuðum mun fara fram viðamikil umræða innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem fjallað verður um nánara innihald nýs samningalíkans og munum við njóta aðstoðar bæði innlendra og erlendra sérfræðinga sem og forystumanna systursamtaka okkar a Norðurlöndunum. Eru miklar vonir og væntingar bundnar við þessa vinnu, en að sama skapi ljóst er mörg ljón eru á veginum áður en hægt er að ljúka þessari vinnu. Alvarlegasta hindrunin virðist ætla að vera stefna núverandi ríkisstjórnar bæði hvað varðar tekju- og skattmál sem og megináherslur í uppbyggingu og útfærslu velferðarkerfisins.
Frá því að ríkisstjórnin tók við völdum snemma sumars árið 2013 hefur hún alið á ójöfnuði og misskiptingu. Í skattalagabreytingum hefur ýmist verið lögð áhersla á að draga úr álögum á þá efna- og tekjumeiri, bæði fólks og fyrirtækja, eða færa álögur af lúxusvörum en viðhalda eða auka álögur á matvæli með þeim afleiðingum að misskipting eykst verulega. Þó þessi forgangsröðun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í tekju- og skattamálum komi ekki beinlínis á óvart er ljóst að þetta hefur torveldað verulega vinnu aðila vinnumarkaðar við að reyna að skapa grundvöll fyrir meiri sátt í samfélaginu. Fátt veldur jafn mikilli reiði meðal launafólks og almennings en óréttlát tekjuskipting. Ofaní þessa ólgu hefur veiking á tekjugrunni ríkissjóðs valdið því að endurreisn og uppbygging velferðarkerfisins í kjölfar hrunsins lætur bíða eftir sér og nýtur ekki nauðsynlegs forgangs. Þrengt hefur verið að aðgengi til náms, einkum í fullorðinsfræðslu og starfsmenntun, gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu hefur stóraukist og biðlistar eru langir og aldraðir og öryrkjar fá ekki að njóta sömu kjaraþróunar og almennt gildir í landinu.
Með nýafgreiddum fjárlögum er ljóst að ríkisstjórnin heggur í sama knérunn og heldur áfram að kynda hér ófriðarbál sem vafalaust á eftir að gera það erfiðara að skapa sátt. Óhjákvæmilega verðum við í forystu verkalýðshreyfingarinnar að ræða þessa stöðu mjög opinskátt við okkar félagsmenn. Ég sé ekki fram á annað en að þessi ríkisstjórn hafi hreinlega skákað sér algerlega út úr umræðunni um nýtt samningalíkan á vinnumarkaði. Stefna þessarar ríkisstjórnar er þess eðlis, að það er útilokað að hægt verði að skapa sátt um nýtt samningalíkan að Norræni fyrirmynd á slíkum grunni. Því tel ég mikilvægt, að vinnumarkaðurinn haldi þessari umræðu áfram í tvíhliða viðræðum um innihald og útfærslur. Í framhaldi af því og samhliða, ræði aðilar vinnumarkaðar síðan sameiginlega við fulltrúa allra stjórnmálaflokka um þessar forsendur. Það er
mikið í húfi og algerlega ljóst að ef við eigum að ná landi í þessari vegferð er óhjákvæmilegt að endurskoða og endurmeta hlutverk stjórnvalda við að skapa hér nauðsynlegar forsendur fyrir sátt og samstöðu, í stað þess að kynda hér stöðugt eitthvert ófriðarbál!
Ég sendi öllum félagsmönnum ASÍ sem og landsmönnum bestu jóla og nýárskveðjur með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Á næsta ári, árinu 2016, mun ASÍ halda upp á 100 ára afmæli sitt og verður þeirra tímamóta í alda langri baráttu okkar fyrir jöfnuði, réttlæti og bættum lífskjörum minnst með fjölbreyttum hætti. Jafnframt vona ég að ykkur og okkur öllum muni farnast vel á næsta ári og auðnast að ná markmiðum okkar.
Gylfi Arnbjörnsson