„Þá grét hún amma ykkar sagði mamma“…

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar var ræðumaður á fundi Rótarýklúbbs Húsavíkur á dögunum. Hér má lesa ræðuna:

Góðir gestir.

Þegar ég minnist æskuáranna kemur stundum upp í hugann minning um sérstakar gæðastundir. Þessar stundir voru ekki á hverju kvöldi, en það kom fyrir þegar við krakkarnir vorum háttaðir að móðir okkar skreið uppí til okkar og sagði sögur. Þetta var fyrir daga sjónvarps -og sjálfvirkra þvottavéla. Mamma þvoði stundum þvottana á kvöldin, ég skynjaði að hún var þreytt. Hún tók sér hlé frá verkum rétt til að láta líða úr sér og reyna að bæla okkur í svefn.Við lokuðum augunum og reyndum að fylgja henni eftir í huganum og ég man ennþá hvernig lyktin af þvottaduftinu kitlaði í nefið. Sögurnar hennar mömmu voru ekki um Kaptein ofurbrók, Hölk eða aðrar ofurhetjur. Sögurnar hennar voru úr daglega lífinu, frá því hún var lítil eða af öfum og ömmum og lífinu í gamla daga. Það má reyndar til sanns vegar færa að þau voru hetjur – bara hetjur hversdagsins. Oftast endaði sögustundin með því að krakkagemlingarnir sofnuðu og hún líka.

Þegar ég var lítil… byrjaði hún oft og ég man að ein sagan var um það þegar kýrin þeirra drapst. „Þá grét hún amma ykkar sagði mamma“… og ég grét líka því ég vorkenndi henni ömmu svo óskaplega að eiga ekki mjólk handa barnaskaranum sínum.

Mér varð hugsað til hennar ömmu minnar þegar ég las um Kýrábyrgðarfélag Þingeyinga, en það var félag sem nokkrar konur í Kelduhverfi stofnuðu með sér… og takið eftir, það var árið 1885. Þá hafa örugglega ekki verið starfandi mörg tryggingafélög á Íslandi. Í byrjun lagði hver kona fram tvö pund af smjöri fyrir hverja kú, smjörið var selt og peningarnir ávaxtaðir í sparisjóði á Akureyri. Lánað var úr sjóðnum til kýrkaupa og dræpist kýr var alltaf bættur hálfur skaðinn. Ekkjumenn voru gjaldgengir í félagið. Líklega er þetta eina tryggingafélagið á landinu sem stofnað hefur verið í þeim tilgangi að tryggja kýr gegn óhöppum. Kýrnar á bænum voru lífakkeri heimilisins, væri engin mjólk handa börnunum voru oft litlar bjargir. Það vissu konurnar og fundu sárast til þess ef kýrin drapst á miðjum vetri.

Þingeyskar konur voru framsýnar og létu sig hlutina varða, þær áttuðu sig á að með samtakamætti væri hægt að sigrast á ýmsum erfiðleikum.

Saga kvenréttinda á Íslandi hefur verið mikið í umræðunni á árinu og er það vel. Heil öld er liðin síðan íslenskar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt. Það voru reyndar ekki eingöngu konur sem öðluðust kosningarétt það ár, heldur einnig eignalausir karlar. Og heldur ekki þar með sagt að kosningaréttur væri orðinn almennur því þeir sem skulduðu til sveitar fengu ekki að kjósa og það ákvæði, að svipta fólk kosningarétti vegna þegins sveitarstyrks var ekki afnumið afnumið fyrr en árið 1934.

Það er því mjög við hæfi að rifja hér upp sögu alþýðufólks frá þeim tíma sem baráttan um brauðið var lífsbarátta, ég er að tala um lífs – baráttu i fyllstu merkingu þess orðs.

Íslenskt samfélag var að taka hröðum breytingum um og upp úr aldamótunum 1900. Þróun í átt til borgaralegs samfélags var að hefjast af fullum krafti og sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst. Fólk streymdi úr sveitunum, þéttbýliskjarnar spruttu upp við sjávarsíðuna. Það var þó ekki endilega ávísun á betra líf, brauðstritið hélt áfram, vinna var stopul, launin lág og húsakynni oft ekki upp á marga fiska.

Verkalýðsbarátta, jafnaðarstefna, og kröfur um jafnan rétt allra þegna óháð stétt og stöðu grófu undan rótum gamla bændasamfélagsins. Það var nýtt afl að líta dagsins ljós. Öldur þessara hræringa báru að ströndu Húsavíkur en risu ekki hátt í það skiptið. Þær náðu þó aðeins að gára hafflötinn og hugmyndin um samtök alþýðunnar náði að skjóta fyrstu rótum sínum.

Konum í alþýðustétt var ekki ætlað rúm í stéttarkenningum forystumanna alþýðusamtaka verkamanna. Þó átti boðskapur fyrstu kvenréttindakvennana um borgaraleg réttindi þeim til handa ekki endilega upp á pallborðið hjá örsnauðum konum sem kepptust við að eiga í sig og á. Skilningur þeirra var enn bundinn hugmyndum bændasamfélagsins um hvernig best væri að haga hugsun sinni og gjörðum. Verkakonur höfðu heldur aldrei átt sér málsvara, það ríkti því í byrjun tregða og skilningsleysi þeirra sumra, á nauðsyn samstöðu svo að baráttan bæri árangur. Þær voru hræddar um að missa mannorð sitt settu þær sig upp á móti atvinnurekandanum og efuðust þá jafnvel um örugga vist í himnaríki. Þó óttuðust þær fyrst og fremst atvinnuleysið, enda beið hungurvofan við dyr þeirra ef þær misstu vinnuna. Börn lærðu snemma að matbjörgin væri hið mikilverðast í lífinu og guð réði öllu, fátæktinni líka.

Konurnar unnu oft við hlið karlanna, sömu störf. Og fyrir það fengu þær helmingi lægri laun. Vinna þeirra hafði alltaf þótt virðingarminni, það var bara þannig, fyrir því var einfaldlega mosagróin hefð. Vinnudagurinn var langur og lagalega voru engin takmörk fyrir því hversu lengi var hægt að láta fólk vinna. Vökulögin voru sett á 1921, en þau kváðu á um 6 tíma lágmarkshvíld.

Vinna verkakvenna í sjávarþorpum var nær eingöngu fiskvinna, vöskun fisks og breiðsla, vinna sem var bæði erfið og kalsöm. Vinnan var árstíðarbundin eins og önnur vinna tengd fiskveiðum og var því mikil eftirspurn eftir konum til þess háttar starfa þegar þess gerðist þörf.

Verkamenn tóku sjaldan upp hanskann fyrir konur í kaupgjaldsmálum og voru þess dæmi að stæðu verkakonur í deilum við vinnuveitendur og höfðu lagt út í verkföll þá létu sumir verkamenn sér sæma að ganga í störf þeirra. Það virðist hafa verið álit þeirra sumra að hækkun á kaupi kvenna gæti orðið til að veikja samstöðu karla.

Blöð verkalýðshreyfingarinnar frá þessum tíma tala enda um að:,,allt kapp sé lagt á kaupgjaldsbaráttu og hagsmuni verkamannahreyfingarinnar, konurnar eigi að styðja menn sína í þessari baráttu og „kjósa Alþýðuflokkinn.“

Verkakvennafélagið Von var stofnað á Húsavík 1918 og fyrsti formaður félagsins var Þuríður Björnsdóttir. Voru þá aðeins fjögur önnur verkakvennafélög starfandi á landinu. Fyrstu félögin voru mynduð um sameiginleg hagsmunamál verkakvenna og af því mótaðist starf þeirra og dró dám að aðstæðum í atvinnulífi og félagsmálum á þeim stöðum þar sem þau störfuðu. Von var vaxið upp af tveimur stofnum, verkalýðshreyfingunni og kvenfélagahreyfingunni, en margar félagskonur voru einnig í kvenfélaginu. Kannski hefur það verið vegna áhrifa frá kvenfélaginu að það sem sem einkenndi starf félagsins framan af voru mál sem kvenfélögin beittu sér að öllu jöfnu fyrir s.s. líknarmál, húsmæðrafræðsla og uppeldismál auk hefðbundinna mála verkalýðsfélaga, einkum þó kaupgjaldsmála. Í Von runnu því saman hugmyndafræðilegir straumar kvenfélagshreyfingarinnar og baráttuhreyfingar verkamanna. Það þýddi þó alls ekki að verkakvennafélagið væri eitthvað „síðra“ en verkamannafélagið.

Félagslegt stuðningsnet myndi það sennilega heita á nútímamáli, en félagskonur studdu við og hlúðu að þeim sem áttu við erfiðleika að stríða sökum veikinda eða fátæktar. Þær söfnuðu fé handa fólki sem leið skort og létu sig varða erfiðleika sérhvers sem átti á brattann að sækja og þótti þurfa aðstoðar við. Þær stofnuðu félagssjóð sem veitt var úr til fátækra félagskvenna og hugmyndin um sérstakt sjúkrasamlag í þorpinu var fyrst rædd á félagsfundi Vonarkvenna.

Seinna stóðu verkalýðsfélögin sameinuð fyrir stofnun lífeyrissjóðsins Bjargar og nefndu hann eftir einni helstu hvatakonu að stofnun verkakvennafélagsinsVonar, Björgu Pétursdóttir.

Sem dæmi um kvenfélagsmál sem verkakonur á hér í bæ sýndu mikinn áhuga var: heimilisiðnaður ýmiskonar, húsmæðrafræðsla og uppeldismál. Barnafræðsla og barnabindindi voru líka mál sem félagið beitti sér fyrir en Vonarkonur unnu ötullega að æskulýðamálum og studdu fast við stúkustarf barna. Þegar lengra leið og verkakvennafélögum fjölgaði viku „mjúku málin,“fastari skorður komust á starfshætti félagsins og það fann sinn stað í hugmyndafræði og starfi alþýðusamtakanna.

Fagleg málefni eins og kaupgjaldsmálin voru reyndar tekin mun fastari tökum hjá verkakonunum í Von heldur en verkamannafélaginu og þær virðast einnig hafa verið mun áhugasamari um að beita félagi sínu í pólítískum tilgangi. Og það var fyrir þeirra tilstilli að það varð að föstum lið um tíma að verkalýðsfélögin stóðu að sameiginlegu framboði í hreppsnefndarkosningum.

Það hefur ekki verið auðvelt fyrir fátæklinga að haga kosningu sinni eins og hjartað bauð því í þá daga fóru kosningar fram í heyranda hljóði. Verslunarfyrirtækin og kaupmenn höfðu hönd á fjárhag fólks og mörgum þótti hyggilegra að kjósa eins og ætla mætti að kaupmönnum líkaði þó eflaust hafi hjartað stundum valið annað.

Fyrsta umræðan um myndun verkamannafélags hófst mörgum árum fyrr, en hana má rekja til Fundafélagsins laust fyrir aldamótin 1900. Þar ræddu heldri menn þorpsins hvort ástæða væri til að stofna sérstakt félag fyrir alþýðumenn. Hvaða andi það var sem blés forsvarsmönnum Fundafélagins í brjóst, kenndur við forræðishyggju eða eitthvað annað, þá var fyrsta umræðan tekin þar. Kannski var það bara sú gamla hefð að hinir betur stæðu hefðu umsjón með forsjón alþýðunar. Af einhverjum ástæðum lagðist Fundafélagið gegn stofnum Verkamannafélagsins nokkrum árum síðar þegar alþýðumenn stofnuðu sitt félag að eigin hvötum. Enda má segja að verkamenn hafi með stofnun eigin félags hafnað forræði Fundafélagsins og forystumanna þess úr hópi betri borgara í þorpinu og tekið atvinnumál sín í eigin hendur.

Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað 1911. Fyrsti formaður verkamannafélagsins var Benidikt Björnsson. Hann var kennari, mikill samvinnumaður og formaður ungmennafélagsins Ófeigs frá Skörðum. Hann hafði ágætan skilning á sjónarmiðum verkalýðsstéttarinnar en taldi ungmennafélagsandann vera mun öflugri leið í baráttu verkafólks fyrir bættum hag heldur en hugmyndafræði verkalýðshreyfingarinnar, því hér á landi væri ekki eins djúpstæð misskipting og óréttur og víða erlendis. Hann taldi að lægja mætti öldurnar meðal verkalýðsins í landinu með því að kynna honum hlutskipti stéttsystkynina í öðrum löndum. Þá myndi fólk átta sig ágæti íslensks þjóðfélags og una þaðan í frá glatt við sitt.

Ég vil taka það fram að ég er á engan hátt að gera lítið úr hugmyndafræði Benidikts, hann var trúr sinni sannfæringu. Benidikt var fyrst og fremst samvinnumaður og sjónarmið samvinnuhreyfingarinnar mótuðu viðhorf hans til annarra málefna. Það voru aðrir tímar.

Líkt og hjá verkakvennafélaginu voru það ekki kaupgjaldsmálin né önnur kjaramál hefðbundinnar verkalýðsbaráttu sem voru stóru málin fyrstu ár verkamannafélagsins heldur samhjálp og samvinna ýmis konar sem og vörukaup til hagsbóta fyrir félagsmenn. Verkafólki var ljóst að upphæð vinnulaunanna var ekki endilega aðalatriðið, heldur skipi hitt miklu frekar máli rétt eins og hjá okkur í dag, hvernig úr því spilaðist sem kom í launaumslagið.

Félagið keypti inn vörur í stórum slöttum og seldu félagsmönnum á hagstæðu verði.Voru vörurnar gjarnan geymdar í skúrum eða á heimilum forystumanna félagsins og kaupin fóru síðan fram þar eða á félagsfundum. Fundir verkamannafélagsins minntu því frekar á vörumarkað en stéttafélagsfundi.

Einn af veigamestu þáttum í samhjálp félagsmanna sneri að öflun eldiviðar. Flest húsin í þorpinu voru gerð úr timbri og einangrun ófullkomin. Þetta voru voru kaldar og heilsuspillandi vistarverur og á þessum árum gátu menn gengið að vetrarhörkum sem vísum. Öflun eldiviðar eða kola á haustin var því hreint lífsspursmál. Félagið útvegaði kol, félagsmenn tóku svörð, öfluðu heyja og beittu sér fyrir margskonar starfssemi sem gátu tryggt lífsafkomu fátækra fölskyldna.

Í fyrstu lögum félagsins er kveðið á um skyldur gagnvart félagsmönnum ef slys eða óhöpp bar að höndum. Það er athyglisvert að í lögum félagsins er tekið fram að tilgangurinn með veitingu fjárstyrkja úr félagssjóði skuli vera að forða mönnum frá því að þurfa að sækja til hreppsnefndar um sveitarstyrk.

Átakasaga verkamannafélagsins er varðar kjaramál hefst ekki að ráði fyrr en það hefur bundist Alþýðusambandinu árið 1923.

Hvorki Verkamannafélagið né Verkakvennafélagið Von virðast hafa verið skilgetin afkvæmi þeirra samfélagsbreytinga sem voru að ryðja sér til rúms á landinu, heldur virðist tilgangur félaganna miklu heldur hafa verið að bindast samtökum um samhjálp ýmis konar, þar sem áherslan var lögð á önnur mál en ekki síður mikilvæg.

Það sem mér finnst ekki síst merkilegt við baráttusögu alþýðufólks á Íslandi er að hún snerist ekki bara um hærri laun. Það var þessi mikla samhjálp og samvinna, hvernig fólk sem hafði nánast ekkert á milli handanna og barðist sjálft í bökkum gat endalaust lagt eitthvað að mörkum til þeirra sem höfðu það enn verra í vægðarlausri veröld. Fólk myndaði sitt eigið samtryggingakerfi sem mildaði höggin ef veikindi, atvinnumissir eða erfiðleikar steðjuðu að. Það var greiði hér, mjólkursopi þar, líklega vísir af einhverskonar ósýnilegu hagkerfi.

Já, það voru aðrir tímar. Eins og ég sagði hér áðan taldi fyrsti formaður verkamannafélags Húsavíkur að ef íslenskri alþýðu yrði kynnt ástandið í öðrum löndum myndi það una glatt við sitt. Manni dettur í hug að sú hugsun sé enn við líði í dag hjá ráðamönnum þjóðarinnar þegar fréttir liðinnar viku koma upp í hugann. Fréttir þar sem Kjararáð skammtar æðstu mönnum þjóðarinnar dágóðan jólabónus meðan þeir hinir sömu þiggjendur, úthluta öldruðu fólki og öryrkjum bótum sem eru svo lágar að fólk getur hvorki lifað á þeim né dáið. Það á að vera gott að búa á Íslandi , við teljumst meðal ríkustu þjóða í heimi, hér ætti enginn að þurfa að líða skort.

Ást, friður og kærleikur eru hugtök sem láta einkar vel í munni nú þegar jólin, hátíð ljóss og friðar nálgast. Hátíðin þegar menn keppast hver við annan að ná sem mestu af allsgnægtarborðum neyslusamfélagsins. Gjafirnar gjarnan heldur stærri en fjárhagurinn leyfir, enda koma skuldadagar ekki fyrr en í febrúar. Við keppumst sem enginn sé morgundagurinn því á okkar heimilum skal enginn fara í jólaköttinn. Við sitjum föst við gluggann í indælum efnisheimi og sjáum ekki út fyrir karmana. Okkur skortir ekkert, en það gerir aftur fólkið sem leitar til okkar um skjól, flóttafólk sem margt hvert hefur misst allt sitt. Margir hafa hrakist frá heimalöndum sínum vegna stríðsátaka, jafnvel misst fjölskyldur sínar og eiga ekki í nein hús að venda. Fréttir af brottvísun albanskra fjölskyldna í vikunni vekja óhug og eru í mínum huga þeim til vansa sem að þeim gjörningi stóðu. Okkur á ekki að standa á sama um náungann og ég spyr: „fyrir hvað stendur kristilegur kærleikur? Í mínum huga varða mannréttindi allt fólk hvort sem það eru konur eða karlar, óháð kyni eða trúarbrögðum.

Og aftur að kvennabaráttunni. Það eru ekki mörg ár síðan ég uppgötvaði að slagorð verkalýðshreyfingarinnar „Frelsi, jafnrétti, bræðralag“ hafi ekki náð yfir mínar kynsystur í upphafi. Árið 1961 samþykkti Alþingi Íslendinga að launamun kynja skyldi útrýmt á 6 árum. Það var tveimur árum áður en ég fæddist.

Á heimasíðu átaks um jafnrétti sem kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir gefa nokkrir þjóðarleiðtogar upp markmið hvers lands í jafnréttismálum. Þeirra á meðal er forsetisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Í máli hans kemur fram að á Íslandi sé þátttaka kvenna á vinnumarkaði sú mesta í heimi, eða um 80%. Þrátt fyrir þennan árangur viðgengst kynbundinn launamunur segir forsetistráðherra og konur fái greitt 5,7-18,3% minna en karlar. Sigmundur upplýsir þar að fyrir árið 2022 verði kynbundnum launamun útrýmt á Íslandi og þar með tryggt að greidd væru sömu laun fyrir sambærileg störf. Í fyrsta sinn mun ríkisstjórn nokkurs lands hrinda af stað skoðun á kynbundnum launamun innan allra fyrirtækja á Íslandi – frá stærstu fyrirtækjum til minnstu fjölskyldufyrirtækja, segir Sigmundur.

Þetta eru falleg orð og sannarlega óskandi að við þau verði staðið.

Kannski eru það gæðastundirnar úr bernskunni sem gera það að verkum að ég hef alltaf haft áhuga á sögunni, og ég var líka einu sinni þreytta móðirin sem skreið uppí til barna minna og sagði þeim sögur forfeðranna.

Ég vonast til að dóttur minni beri gæfa til að verða móðir, og ég get séð hana fyrir mér þar sem hún skríður undir sængina til barnanna sinna á kvöldin og segir þeim sögur. Hún verður ekki örmagna eftir alltof langan vinnudag og getur leyft sér að eiga margar gæðastundir með fjölskyldunni. Hún mun segja börnunum sínum að einu sinni hafi það verið þannig á Íslandi að konur hafi ekki haft sama rétt eða sömu laun og karlar. Að það hafi ekki tíðkast að konur ynnu á vinnuvélum, væru verkstjórar, verkfræðingar eða flugmenn, hvað þá forsetar, biskupar eða ráðherrar. Og hún mun segja þeim sögur af þríhöfða þursum sem stóðu í vegi fyrir bættum kjörum íslenskrar alþýðu. Þetta er sagan, við breytum ekki því sem að liðið er.

Ég vil hinsvegar ekki að hún þurfi að segja barnabörnunum mínum sögur af því að við sem mótum íslenskt samfélag í dag getum ekki boðið öllum þegnum okkar mannsæmandi kjör. Ég vil ekki að hún þurfi að segja þeim frá því að við höfum sent flóttafólk með langveik börn sín burt frá landinu, vegna trúar sinnar eða af því það passaði ekki inn í fyrirframmótað“ norm“ sem við vorum búin að ákveða hvernig ætti að vera. Og ég vona svo heitt og innilega að árið 2022 muni sagan hans Sigmundar Davíðs um útrýmingu launamunar kynjana ekki hljóma úr munni dóttur minnar eins og sagan um spýtustrákinn Gosa.

Ég ætla að enda þessar hugleiðingar mínar með ljóði eftir Valborgu Bentsdóttir sem var í eina tíð formaður Kvenréttindafélags Íslands.

Metinn skal maðurinn,

manngildi er hugsjónin.

Enginn um ölmusu biður.

Hljómar um fjöll og fjörð:

Frelsi skal ríkja á jörð,

jafnrétti, framþróun, friður.

Deila á