Framsýn boðaði til fundar með starfsmönnum G&M á Þeistareykjum í vikunni. Pólska fyrirtækið hefur síðustu mánuði unnið að því að byggja upp stöðvarhúsið á Þeistareykjum. Hlé verður gert á uppbyggingunni um áramótin en síðan verður verkinu haldið áfram á nýju ári. Tæplega 80 pólskir starfsmenn hafa komið að verkinu fram að þessu. Á fundinum í gær var gengið frá kjöri á trúnaðarmanni, kosningu hlaut Lukas Lenarczyk.
Formaður Framsýnar gerði starfsmönnum grein fyrir kjarasamningi félagsins og G&M sem tryggir starfsmönnum hærri laun en þeim stóð til boða þegar þeir komu til starfa í vor.
Hlustað á kynningu um samninginn.
Starfsmennirnir voru áhugasamir um samninginn enda tryggir hann starfsmönnum ákveðið öryggi.
Þessi ágæti verkamaður G&M gerði athugasemdir við að ekki var mynd af honum í síðasta Fréttabréfi stéttarfélaganna en blaðið fjallaði sérstaklega um starfsemina á Þeistareykjum. Því var að sjálfsögðu reddað á staðnum og honum lofað að myndin yrði birt á heimasíðu stéttarfélaganna.
Formaður Framsýnar er hér með Lukasi yfirmanni G&M, sem er í miðjunni og nafna hans Lukasi Lenarczyk nýkjörnum trúnaðarmanni starfsmanna. Fundarhöldin með starfsmönnum stóðu í tæpa þrjá tíma.