Styðja baráttu aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti í kvöld að senda frá sér svohljóðandi ályktun þar sem tekið er undir með þeim hópum í þjóðfélaginu sem hafa gleymst þegar kemur að því að hækka launakjör fólks í landinu. Hér er verið að tala um aldraðra, öryrkja og atvinnuleitendur. Sjá ályktun:

Ályktun
Um kjör aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda

„Framsýn, stéttarfélag skorar á Alþingi að falla frá löngu úreltu kerfi sem byggir á því að þingið skammti minnihlutahópum í þjóðfélaginu launahækkanir sem eru langt frá því að vera í takt við almennar launahækkanir á íslenskum vinnumarkaði.

Þess í stað verði lögum um Kjararáð breytt og ráðinu falið að meta hækkanir til aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda með sambærilegum hætti og því er ætlað varðandi helstu embættismenn þjóðarinnar.

Nýlega ákvað Kjararáð að hækka laun þeirra embættismanna ríkisins sem heyra undir ráðið um 9,3%. Um er að ræða afturvirka hækkun frá 1. mars 2015 sem gefur þingmönnum og ráðherrum allt að 118.384 króna hækkun á mánuði.

Þessar ríflegu launahækkanir eru langt umfram hækkanir á almenna vinnumarkaðinum og hjá opinberum starfsmönnum innan Alþýðusambands Íslands sem hækka um 25.000 krónur á mánuði. Heildarhækkun þessara láglauna hópa í fjögurra ára samningi nær ekki grunnhækkunum forsætis- og fjármálaráðherra landsins.

Er von að spurt sé, hvar ábyrgðin liggur í raun og veru:

• Liggur hún hjá þeim hófsömu sem sömdu um 25.000 króna hækkun á mánuði?

• Liggur hún hjá öldruðum, öryrkjum og atvinnuleitendum sem búa við kjör sem eru við fátækramörk?

• Eða liggur hún kannski hjá ráðamönnum þjóðarinnar sem svífast einskis í kjaramálum þegar þeir eiga sjálfir í hlut?

Framsýn varpar þessum spurningum til þjóðarinnar til umhugsunar og umræðu og vill benda á að ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur orðið tíðrætt um ábyrgð launafólks í landinu og varað eindregið við verkfallsaðgerðum þeirra.“

Deila á