Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum átti Norska fyrirtækið Leonhard Nilsen & Sønner AS lægsta tilboðið í Bökkugarð og Bakkaveg frá Húsavíkurhöfn að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Tilboðið hljóðaði upp á 2.841 milljón króna sem nam 101,3 prósentum af áætluðum verktakakostnaði. Um er að ræða 943 m löng jarðgöng 10,8 m breið, styrkingu ganganna og rafbúnað þeirra auk 49 m vegskála. Vegagerðin er um 2,1 km af vegi ásamt brimvörn, utan ganganna. Verkinu skal lokið 20. ágúst 2017.
Fulltrúar Framsýnar funduðu á dögunum með verkefnastjóra fyrirtækisins er viðkemur verkinu. Farið var yfir nokkra þætti, s.s. verkið sjálft, fjölda starfsmanna við framkvæmdina og kjör starfsmanna. Góður vilji er til þess meðal Framsýnar og verktakans að eiga gott samstarf um verkið er snertir kjör og aðbúnað starfsmanna. Hátt í 100 manns munu koma að verkinu þegar mest verður.
Framkvæmdir við vegagerðina frá Húsavíkurhöfn að Bakka eru þegar hafnar.