„Niðurstaða stórrar rannsóknar á viðhorfum ungmenna til búsetu í Norðurþingi og nágrenni sýnir að ungt fólk hefur ekki áhuga á að starfa í stóriðju líkt og þeirri sem fyrirhuguð er á Bakka. Í stað heimamanna eru það erlendir ríkisborgarar sem koma til með að fylla þeirra skarð.“
Segir í frétt um skýrslu sem birtist á dögunum og þótti af einhverjum ástæðum tíðindum sæta. Og það sætir vissulega tíðindum að þetta skuli sæta tíðindum, því niðurstaða skýrslunnar er nákvæmlega sú sama og alltaf hefur komið fram í sambærilegum könnunum. Ungt fólk kveðst sem sé ekki hafa áform um að starfa við stóriðju í framtíðinni.
Þetta sagði unga fólkið á Austfjörðum þegar viðhorf þess til starfa í álverinu á Reyðarfirði voru könnuð á sínum tíma. Og þá var einnig talað um að það þyrfti að flytja inn fólk til að vinna í álverinu.
Og niðurstaðan nú? Þar er hlutfall íslenskra starfsmanna svipað og víðast annarsstaðar í landinu í ýmsum starfsgreinum. Þar er ungt fólk að störfum og ekki bara ungmenni af Austurlandi, því m.a. hefur ungt fólk úr Þingeyjarsýslu flust austur til að vinna í álverinu á Reyðarfirði.
Og hvað launamál varðar, þá bendir allt til að laun í verksmiðjunni á Bakka verði mun hærri og atvinnuöryggi mun meira en í jafnvel flestum þeim fyrirtækjum sem fyrir eru. Fyrir svo utan það að hátt hlutfall starfa í verksmiðjunni krefst menntunar af ýmsum toga.
Og jafnvel þó engin ungmenni af svæðinu myndu starfa á Bakka, sem raunin hefur þó alls ekki verið í sambærilegum fyrirtækjum til þessa, þá hefur þetta verkefni veruleg áhrif á annað atvinnulíf á svæðinu. Framkvæmdin á Bakka kallar á þjónustu á ýmsum sviðum, í verslun, veitingarekstri, allskonar iðnaðarstarfsemi, opinberri þjónustu, skólum, heilsugæslu og bara nefndu það.
Hér er sem sé um að ræða þá kjölfestu sem svo lengi hefur skort á svæðinu, kjölfestu sem getur styrkt og eflt þá starfsemi sem fyrir er, jafnvel komið í veg fyrir að hún einfaldlega leggist af og mun að auki skapa ný tækifæri í margvíslegum atvinnurekstri.
Það eru þessi hliðaráhrif sem eru ekki síst mikilvæg, alveg óháð því hve margt ung fólk hyggst beinlínis ætla sér og komi til með, að vinna beint í verksmiðjunni.
Og gott og vel. Gerum könnun meðal ungmenna á Íslandi um draumajobbið. Ef í ljós kemur að 90% ungra Íslendinga sjá ekki framtíð í því að vinna í fiski, starfa við sjómennsku, byggingariðnað, hjúkrun, kennslu, vegagerð, bifvélavirkjun, umönnunn aldraðra eða sem almennir verkamenn; eigum þá að afneita og leggja niður þau fyrirtæki og stofnanir sem vormenn Íslands telja ekki fýsilegt að starfa hjá í framtíðinni??
Og ef unga fólkið hafnar alfarið störfum sem hér að ofan eru nefnd, hvað gerum við þá? Flytjum inn ódýrt, erlent „vinnuafl“ eins og sumir kalla fólk í skýrslum?
Og það held ég nú. JS
Svo skrifar Jóhannes Sigurjónsson í leiðara í síðasta Skarpi. Heimasíðan fékk leyfi hans til að birta leiðarann á heimasíðunni.