Skora á Vísi hf. að gera þegar í stað upp við starfsmenn

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti á fundi sínum að senda frá sér yfirlýsingu vegna vangoldinna launa Vísis hf. til starfsmanna fyrirtækisins sem störfuðu í starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík áður en henni var lokað 1. maí 2014. Þrátt fyrir niðurstöðu Félagsdóms um að fyrirtækinu bæri að greiða starfsmönnum laun í stað þess að vísa þeim á atvinnuleysisbætur hefur fyrirtækið ekki gert upp við starfsmenn. Sjá yfirlýsingu Stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar:

Yfirlýsing Framsýnar
varðandi uppgjör Vísis hf. við fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins á Húsavík

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar skorar á sjávarútvegsfyrirtækið Vísi hf. í Grindavík að virða fallinn dóm sem kveður á um að fyrirtækinu beri skylda til að gera upp laun við starfsmenn sem störfuðu í starfstöð fyrirtækisins á Húsavík sem lögð var niður 1. maí 2014. Því miður hefur fyrirtækið ekki séð ástæðu til að virða dóminn sem er ámælisvert svo ekki sé meira sagt.

Þá ítrekar Framsýn beiðni félagsins til Vinnumálastofnunar um að stofnunin veiti félaginu upplýsingar um hvernig staðið var á uppgjöri Vísis hf. við stofnunina sem greiddi starfsmönnum atvinnuleysisbætur á sama tíma og starfsmenn áttu samkvæmt niðurstöðu Félagsdóms að vera á launum hjá fyrirtækinu.

Framsýn mælist eindregið til þess að niðurstaða fáist í málið á næstu dögum.

Þrátt fyrir bréf Framsýnar til Vísis hf. 20. september sl., þar sem þess var krafist að fyrirtækið gerði upp við starfsmenn vangoldin laun, hefur það ekki verið gert. Þess vegna samþykkti stjórn og trúnaðarmannaráð félagsins að senda frá sér yfirlýsingu með áskorun um að Vísir hf. geri þegar í stað upp við starfsmenn. Þá hefur Framsýn einnig ítrekað ósk félagsins um upplýsingar frá Vinnumálastofnun varðandi uppgjör milli stofnunarinnar og sjávarútvegsfyrirtækisins þar sem starfsmenn voru á atvinnuleysisbótum á sama tíma og þeir áttu að vera á launum hjá Vísi hf. Myndin hér að ofan er tekin af starfsmönnum Vísis hf. sem störfuðu á Húsavík sem Framsýn boðaði til með þeim eftir ákvörðun Vísis að loka starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík þann 1.maí 2015. Mikil þungi var í fundarmönnum.

Deila á