Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar, stéttarfélags í kvöld. Í ályktuninni kallar Framsýn eftir úttekt stjórnvalda á áhrifum þess fyrir landbúnaðarhéruðin og starfsmenn í matvælaiðnaði verði tollverndinni breytt samkvæmt tollasamningi Íslands og ESB. Félagið telur algjört ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda að staðfesta breytingarnar frá Alþingi án þess að vita hvað þær þýða í raun fyrir samfélagið, starfsmenn matvælafyrirtækja og veikar byggðir landsins.
Ályktun
Um tollasamning Íslands og ESB
„Nýgerður milliríkjasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með búvörur og gagnkvæma niðurfellingu tolla vekur upp margar spurningar er viðkemur framtíð landbúnaðar á Íslandi og afleiddra starfa í matvælaiðnaði og þjónustu er tengist landbúnaði.
Á félagssvæði Framsýnar eru nokkur öflug matvælafyrirtæki sem veita tugum starfsmanna vinnu. Ljóst er að starfsemi þeirra verður sett í mikið uppnám gangi stefna stjórnvalda eftir í breytingum á tollvernd búvara.
Matvælaiðnaður á Íslandi er ein af stærstu undirgreinum iðnaðarins með um 17% af heildarveltu í iðnaði, fyrir utan fiskvinnslu. Á síðasta ári störfuðu um 4000 starfsmenn við matvælaframleiðslu sem flestir eiga það sameiginlegt að vera í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.
Framsýn gagnrýnir samráðsleysi stjórnvalda við verkalýðshreyfinguna sem hefur mikilla hagsmuna að gæta gagnvart þeim fjölda starfa sem eru í hættu verði samningurinn staðfestur af Alþingi. Framsýn kallar eftir úttekt stjórnvalda á áhrifum þess fyrir landbúnaðarhéruðin og starfsmenn í matvælaiðnaði verði tollverndinni breytt. Það er algjört ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að staðfesta breytingarnar frá Alþingi nema allar forsendur liggi fyrir hvað áhrifin varðar.“