Starfsgreinasambandið sem Framsýn á aðild að hefur undirritað nýjan kjarasamning við Landsvirkjun sem gildir frá 1. mars síðastliðnum til ársloka 2018. Samningurinn gildir fyrir sumarstarfsfólk í dreifikerfum og á aflstöðvum Landsvirkjunar svo og matráða, ræstingafólk, bílstjóra og tækjamenn á aflstöðvum.
Samningurinn er á sömu nótum og undirritaðir samningar á hinum almenna vinnumarkaði en þó voru ferðalaun sett inn í grunntaxta starfsfólks á aflstöðvum eins og tíðkast hefur innan Landsvirkjunar hingað til. Í kjarasamningnum er einnig fjallað um rétt starfsfólks á viðtali við yfirmann vegna starfskjara og möguleika á launaflokkahækkun vegna náms.
Næstu skref er að leggja samninginn fyrir starfsfólk sem eru félagsmenn aðildarfélaga SGS í atkvæðagreiðslu. Póstatkvæðaseðlar verða sendir út á næstu vikum.
Hægt verður að nálgast samninginn inn á heimasíðu Framsýnar á næstu dögum.
Kjarasamningurinn sem var undirritaður fyrir helgina milli Starfsgreinasambandins og Landsvirkjunar nær til starfsmanna Framsýnar sem starfa við Kröfluvirkjun og Laxárvirkjun og síðar til starfsmanna við Þeistareykjavirkjun.