Framkvæmdir vegna byggingar kísilvers á Bakka við Húsavík hófust formlega í dag. Gert er ráð fyrir að byrjað verði að ráða fólk til starfa í verksmiðjunni á síðari hluta þessa árs. Meðfylgjandi myndir voru teknar við það tækifæri í dag.
Byrjað var á veglagningu og jarðvegsvinnu á Bakka í sumar, en formleg opnunarhátíð fór fram í dag. Búast má við að þegar að mest verði muni um 450 manns starfa við byggingu kísilversins en byggingarkostnaður er talin verða um 40 miljarða króna. Forsvarsmenn framkvæmdanna segja að í hönnun og undirbúningi byggingarinnar hafi verið tekið sérstakt tillit til þess að verið sé að byggja á jarðskjálftasvæði og að það sé alveg öruggt að engin hætta sé á ferð.
Burkhard Dahmen framkvæmdarstjóri SMS group sem hefur umsjón með byggingu verksmiðjunnar segir að au þess hafi verið tekið tillit til íslenskra annarra umhverfisþátta eins og vindstyrkst og mögulega snjóþunga. Hann segir öryggi starfsmanna og fjárfestingarinnar vera tryggt.
Gert er ráð fyrir að starfsemi í kísilverinu geti hafist í lok 2017. Um 120 – 30 starfsmenn munu starfa í kísilverinu og byrjað verður að ráða í stjórnenda- og millistjórnendastöður síðara hluta þessa árs. Reiknað er með að búið verða að ráða allt starfsfólk um mitt ár 2017. Lögð verður áhersla á að ráða Íslendinga til starfa.
Peter Wenzel yfirmaður orkusviðs PCC segir að horft verði til þess að ráða aðallega íslendinga.
„Við vonum að við finnum mjög hæft fólk sem hefur áhuga á að búa á Húsavík. Við munum leggja okkur mjög fram um að vera ábyrgur og góður vinnuveitandi og erum þess fullviss að við náum að setja saman gott teymi. “ (heimild ruv.is)
Í dag fór fram formleg opnunarhátíð PCC Bakki Silicon hf. vegna upphafs framkvæmda við Kísilmálmverksmiðu á Bakka við Húsavík. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri Norðurþings, Waldemar Preussner eigandi PCC og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra klipptu á borða við framkvæmda- og iðnaðarsvæðið á Bakka.