Gleðidagur hjá frístundabændum

Það var hátíðarbragur í Tröllakoti á laugardaginn þegar frístundabændur á Húsavík réttuðu í nýju fjárréttinni sem þeir reistu þar síðsumars.

Formaður Fjáreigendafélags Húsavíkur, Aðalsteinn Árni Baldursson, bauð fjölmarga gesti velkomna um leið og hann fór yfir tildrög þess að frístundabændur á Húsavík byggðu nýja rétt í Tröllakoti.

Fram til þessa hefur réttin verið í landi Bakka sem nú hefur verið tekið undir stóriðju á vegum PPC og því þurfti gamla réttin að víkja.

Fjáreigendafélag Húsavíkur var stofnað sumarið 1983 og fjárbændurnir Sigurður Jónsson og Jón Ágúst Bjarnason, sem hafa verið félagsmenn frá upphafi ásamt Aðalsteini Árna fjallskilastjóra, gáfu réttinni nafnið Húsavíkurrétt.

Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri Norðurþings klippti síðan á réttarborðann og naut við það aðstoðar dóttur sinnar Aðalheiðar Helgu.

Þar með vígði hann réttina og óskaði fjáreigendum til hamingju með glæsilega rétt.

Þá var tekið til við að draga féð í dilka en um 500 fjár var saman komið í réttinni frá Húsavík og nærliggjandi sveitum, það er frá Tjörnesi, Kelduhverfi, Reykjahverfi og Aðaldal. Meðan á fjárdrættinum stóð buðu fjáreigendur upp á kaffi, safa og kleinur og var það vel þegið í veðurblíðunni sem var einstök.

Í lokin var boðin upp falleg gimbur í tilefni vígslunnar og komu nokkru tilboð í hana en svo fór að Torfi Aðalsteinsson bauð hæst og hlaut gimbrina fögru.

Sigurður Jónsson og Jón Ágúst Bjarnason sem komu að því að stofna fjáreigendafélagið árið 1983 gáfu réttinni nafn, Húsavíkurrétt.

Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri Norðurþings klippti síðan á réttarborðann með dóttir sinni Aðalheiði Helgu og vígði þar með réttina formlega.

Gjörið svo vel, réttin er klár. Rekið inn í réttina í fyrsta skiptið.

Það var mikið um fólk og búfénað í Húsavíkurrétt á laugardaginn sem er öll hin glæsilegasta.

Þrír góðir, Sturla með barnabarni, Hafliði og  Friðbjörn Jónatansson frá Nípá sem var þarna 96 ára höfðingi. Ánægjulegt var að sjá  heimilsmenn á Hvammi taka þátt í deginum enda flestir fyrrverandi bændur.

Dregið í dilka, Einar og Sveinbjörn voru duglegir við dráttinn. Hér eru þeir með Birtu úr Grobbholti.

Þetta er bara gaman, Kristján Þór bæjarstjóri með fallegan lambhrút.

Hallur og Hróðný voru á svæðinu eins og fjölmargir aðrir.

Aðaldís og María sem ættaðar eru frá Húsavík hjálpuðu að sjálfsögðu til við að draga en þær búa báðar á höfuðborgarsvæðinu og komu sérstaklega norður til Húsavíkur til að taka þátt í réttardeginum.

Gunnar, eigum við ekki örugglega þetta lamb, það er svo stórt? Feðgarnir, Torfi og Gunnar eru hér að skoða lamb.

Kristján stórbóndi dregur Baugu sína í nýja dilkinn. Eins og sjá má er Bauga nokkuð ánægð með nýju réttina.

Á ég ekki örugglega þessa eða hvað?

Eigum við ekki þessa í horninu.

Deila á