Réttað verður í nýrri Húsavíkurrétt sem staðsett er í Tröllakoti laugardaginn 12. september kl. 15:00. Að sögn fjáreigenda á Húsavík eru bæjarbúar og gestir hjartanlega velkomnir. Fjáreigendur á Húsavík hafa alltaf verið yfirlýsinga glaðir en þeir telja réttarstemninguna hvergi vera betri en í Húsavíkurrétt. Eitt er víst að nýja réttin er glæsileg.
Dagskrá:
1. Fjallkóngur Húsavíkur flytur yfirgripsmikið ávarp
2. Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri Norðurþings vígir réttina
3. Löglegur fjárdráttur hefst í umboði frístundabænda
4. Uppboð: Ein fallegasta gimbrin í réttinni verður boðin upp í tilefni af vígslu réttarinnar. Sá heppni fær umhirðu, húsaskjól og fóður fyrir gimbrina í viðurkenndu fjárhúsi í eitt ár.
5. Kaffi og kleinur. Frístundabændur bjóða gestum og gangandi upp á kaffi og kleinur.
Húsavíkurrétt er öll hin glæsilegasta, réttað verður í henni laugardaginn 12. september kl. 15:oo. Til viðbótar má geta þess að bændur víða um héruð rétta einnig um helgina.