Ekki fer á milli mála að aukinnar bjartsýni gætir á Húsavík enda mikið um framkvæmdir á svæðinu er tengist uppbyggingunni á Bakka. Fyrir liggur að íbúum kemur til með að fjölga og þegar er farið að bera á því að fólk flytji til Húsavíkur, bæði nýbúar og eins Húsavíkingar sem búið hafa á öðrum landshornum um áratugaskeið en sjá nú tækifæri felast í því að flytja heim aftur. Einn af þeim er Karl Hreiðarsson sem starfað hefur hjá VÍS í Reykjavík. Fjölskylda hans tók nýlega ákvörðun um að flytja heim og starfar kappinn nú hjá útibúi VÍS á Húsavík, en VÍS gerði honum kleyft að taka starfið úr Reykjavík með sér norður. Við spurðum Kalla út í málið, hvers vegna sagði hann bless við borg óttans og flutti aftur á æskuslóðirnar?
„Vitanlega eru ástæðurnar fyrir því af hverju við ákváðum að flytja aftur heim til Húsavíkur eftir 16 ár í Reykjavík æði margar. Við erum sérlega lánsöm að eiga hér frábæran lager af fjölskyldu og vinum, það vóg eðlilega þungt, en kannski ekki síst löngun til að komast í barnvænna og rólegra umhverfi í víðu samhengi. Þó okkur hafi liðið alveg prýðilega í Reykjavík er stressið hér einfaldlega allt annað, maður er fljótari að flestu og fær því meiri tíma í gæðastundirnar, hvort sem það er að fara í sund með krökkunum, hlusta á vínylplötur eða drekka kaffi (já eða góða ölið!) hjá fólkinu sínu. Það er nú ekki lítils virði!“
Kalli er ánægður með að vera komin heim í heiðan dalinn ásamt fjölskyldu. Því er ekki að neita að það er alltaf gleðilegt að fá gott fólk aftur inn í samfélagið hér á Húsavík, það gerir það öflugra og skemmtilegra í alla staði. Velkomin heim Kalli og fjölskylda.