Fulltrúar frá Landsneti funduðu í gær með forsvarsmönnum Framsýnar og Þingiðnar um fyrirhugaðar framkvæmdir fyrirtækisins á svæðinu sem koma til með að kosta um 8 milljarða. Um er að ræða 63 km háspennulínu frá Kröflu að Bakka við Húsavík með tengingu við stöðvarhúsið á Þeistareykjum, línurnar verða 220 kV. Þá þarf að ráðast í byggingar á þremur stórum tengivirkjum. Það er ofan þjóðvegar við Bakka, á Þeistareykjum og við Kröflu. Tengivirkin verða um 1500 til 2000 m2 byggingar. Reiknað er með að tengivirkin verði boðin út um næstu áramót og byggð næsta sumar. Síðan verður rafbúnaði komið fyrir í þeim veturinn 2016-17. Um næstu áramót verður háspennulínan frá Kröflu til Húsavíkur einnig boðin út og í kjölfarið hefjast framkvæmdir við línulögnina. Allt á síðan að vera klárt í nóvember 2017. Um er að ræða mjög miklar framkvæmdir sem kalla á hundruðir ársverka. Framkvæmdirnar verða boðnar út í nokkrum útboðum. Það er von Landsnets að heimamenn verði duglegir að bjóða í verkin. Fulltrúar Framsýnar lögðu áherslu á að heimamenn fengju tækifæri til að bjóða í verkin og fögnuðu vilja fyrirtækisins til þess.
Fundur stéttarfélaganna með fulltrúum Landsnets var vinsamlegur. Félögin leggja upp úr góðu samstarfi við fyrirtækið enda koma fjölmargir starfsmenn að framkvæmdunum sem verða á þeirra vegum. Stéttarfélögunum er ætlað að gæta hagsmuna starfsmannanna.
Á fundinum í gær var viðruð sú hugmynd að Landsnet standi að fræðslufundi um framkvæmdirnar í samstarfi við stéttarfélögin. Fulltrúar Landsnets tóku vel í hugmyndina og samþykkt var að skoða málið frekar.