Skrifstofu stéttarfélaganna hafa borist í sumar fyrirspurnir frá starfsfólki sem starfar hjá bændum við hefðbundin landbúnaðarstörf og ferðaþjónustu. Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að bændum ber að greiða öllum starfsmönnum að lágmarki laun samkvæmt 10 launaflokki kjarasamnings Bændasamtaka Íslands og Starfsgreinasambands Íslands.Þá ber bændum að meta nám sem nýtist starfsmönnum í starfi um allt að tvo launaflokka. Í þeim tilvikum sem bændur velja að draga frá launum starfsmanna fæði og húsnæði samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins ber þeim að uppfylla að starfsmannaaðstaðan s.s. svefnaðstaða, standist reglugerðir um aðbúnað og hollustu starfsmanna. Eitthvað er um að bændur séu með svokallaða erlenda „sjálfboðaliða“ við störf, ýmist frá löndum innan eða utan EES-svæðisins (Evrópusambandsins og EFTA). Þessir einstaklingar eru ekki skráðir sem launþegar en fá fæði og húsnæði fyrir sín störf. Þessi skipan mála er með öllu ólögleg. Allir sem taka þátt í efnahagslegri starfsemi með vinnuframlagi í þjónustu annars aðila eru launþegar. Þeim ber að greiða laun skv. kjarasamningum og tryggja þeim öll þau réttindi sem lög og kjarasamningar tilgreina. Þessir einstaklingar eru jafnframt skattskyldir hér á landi og bændum ber að standa hinu opinbera skil á staðgreiðslu af launum þeirra og annarri þóknun. Vanræki bændur þær skyldur eru þeir sjálfir ábyrgir gagnvart hinu opinbera. Veikist eða slasist þessir starfsmenn í störfum hjá þeim eru þeir jafnframt ábyrgir og geta orðið skaðabótaskyldir án þess að lög- eða kjarasamningsbundnar tryggingar taki tjónin yfir. Mörg dæmi eru um það á almennum vinnumarkaði að litlir atvinnurekendur verði gjaldþrota vegna þeirra krafna sem á þá stofnast vegna óskráðs eða ranglega skráðs launafólks.
Dæmi er um að Skrifstofa stéttarfélaganna hafi fengið fyrirspurnir um stöðu svokallaðra „sjálfboðaliða“ við landbúnaðarstörf og ferðaþjónustu. Það er þegar starfsmenn fá ekki kjarasamningsbundinn laun heldur fæði og húsnæði fyrir að skila vinnuframlagi, oft löngum vinnudögum. Framsýn gerir alvarlegar athugsemdir við slíka vinnutilhögun og varar eindregið við henni. Reyndar hafa stéttarfélög víða um land sömuleiðis áhyggjur af þessari þróun sem er alvarleg.