Samkvæmt nýgerðum kjarasamningi sem undirritaður var milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar, sambands iðnfélaga 22. júní 2015 eiga iðnaðarmenn nú rétt á fjarvistarálagi dvelji þeir fjarri ráðningarstað í meira en tvær nætur. Ný grein í kjarasamningi orðast svo og gildir frá 1. maí 2015.
„Ef starfsmaður er sendur á vegum fyrirtækisins til að dvelja fjarri ráðningarstað meira en tvær nætur skal samið um fjarvistarálag, enda hafi ekki verið gert ráð fyrir þóknun vegna slíkra fjarvista við ákvörðun launa.“
Eins og sjá má er upphæðin ekki tiltekin sem semja á um í þessum tilvikum. Skrifstofa stéttarfélaganna er með þau tilmæli að upphæðin sé ekki lægri en 10% álag ofan á dagvinnulaun og vitnar þar til fjarvistarálags sem getið er um í samningi Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaga innan ASÍ vegna stórframkvæmda og greitt er iðnaðarmönnum sem falla undir kjarasamninginn um stórframkvæmdir. Þar er tiltekið að álagið skuli vera 10% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu og myndi ekki stofn fyrir yfirvinnu eða aðrar álagsgreiðslur.
Iðnaðarmenn eiga rétt á fjarvistarálagi dvelji þeir lengur en í tvær nætur fjarri ráðningarstað.