Framsýn og Þingiðn hafa óskað eftir formlegum fundi með fulltrúum Landsnets vegna framkvæmda fyrirtækisins við lagningu háspennulínu frá Þeistareykjum til Húsavíkur með tengingu við Kröflu. Fundartími verði í ágúst, það er eftir sumarfrí.
Framsýn hefur átt gott samstarf við Landsvirkjun og LNS Saga varðandi framkvæmdir á Þeistareykjum er varðar starfsmannamál enda verkin unnin á félagssvæði Framsýnar en innan félagsins eru um 2.400 félagsmenn. Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum hefur einnig komið að þessu samstarfi. Sameinginlegt markmið aðila er að láta framkvæmdina ganga vel og hnökra lausa. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins koma einnig að samstarfinu í gegnum sameinginlega samstarfsnefnd.
Áhugi er fyrir því innan Framsýnar og Þingiðnar að fá upplýsingar um hvenær framkvæmdir eiga að hefjast við línulögnina og hverjir koma til með að vinna verkið, verður verkið boðið út og eftir hvaða kjarasamningi verður farið?
Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum leggja mikið upp úr góðu samstarfi við verktaka og verkaupa sem koma að uppbyggingunni sem tengist stóriðju á Bakka.