Þýska fyrirtækið PCC sem ætlar að reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík og sveitarfélagið Norðurþing stóðu fyrir opnum íbúafundi á Húsavík í gær. Fundurinn fór fram í fundarsal stéttarfélaganna. Á fundinum var farið sérstaklega yfir uppbyggingu kísilvers PCC BakkiSilikon hf. á Bakka og uppbyggingu hafnar og vegtengingar vegna Bakka. Framkvæmdirnar eru að hefjast um þessar mundir. Fram kom að fyrirtækið vill eiga mjög gott samstarf við heimamenn, bæði á uppbyggingartímanum og eins þegar verksmiðja fyrirtækisins hefur starfsemi eftir þrjú ár. Forsvarsmenn fyrirtækisins fengu margar spurningar frá fundarmönnum. Meðal annars var komið inn á umhverfismál og kjör starfsmanna. Fulltrúar PCC tóku það skýrt fram að vel yrði hugað að umhverfismálum enda markmið fyrirtækisins að ganga vel um náttúruna. Varðandi kjör starfsmanna, þá væri það jafnframt markmið fyrirtækisins að greiða góð laun til að tryggja stöðugleika í verksmiðjunni. Mikil starfsmannavelta í fyrirtækinu væri ekki ásættanleg, ekki síst þar sem fyrirtækið ætlaði sér að framleiða hágæðavöru fyrir sína viðskiptavini. Fundurinn var fjölsóttur en yfir 70 manns mætu á fundinn.
Forsvarsmenn PPC voru á Húsavík í gær og stóðu fyrir íbúafundi ásamt Norðurþingi. Ekki er búið að ákveða hvenær formleg skóflustunga verður tekin en það verður gert síðar á þessu ári.
Fjölmenni var á fundinum í gær.
Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar óskuðu í gær eftir formlegum viðræðum við PCC um kjarasamning fyrir starfsmenn fyrirtækisins auk þess sem þeir komu þeim tilmælum til forsvarsmanna fyrirtækisins að þeir vildu eiga gott samstarf við erlenda verktakann sem kemur að því að byggja upp verksmiðjuna fyrir PCC á Bakka. Reiknað er með að um 700 starfsmenn komi að uppbyggingunni.