Það voru hress og kát mæðgin sem einn af fréttariturum heimasíðunnar rakst á í Fnjóskadalnum í dag. Þetta voru þau Jenný Friðjónsdóttir og sonur hennar Sigurjón Gunnar Gunnarsson. Jenný starfar við það sem hingað til hefur verið skilgreint sem hefðbundið karlastarf. Hún starfar við þökuskurð og flutning á þökum og áburði í sveitir og bæi á Norðurlandi. Jennýju líkar vinnan vel og hún segir að menn reki stundum upp stór augu þegar drekkhlaðinn vörubíll rennir í hlað og úr bílstjórasætinu stekkur kona. Það er heldur ekki svo ýkja langt síðan að ekki þótti sjálfsagt að konu hefðu yfirhöfuð bílpróf. Konur eins og Jenný láta ekki staðalímyndir kynjanna þvælast fyrir sér og sýna það og sanna sem löngu er orðið ljóst, að konum eru allir vegir færir. Hinn ungi Sigurjón er móður sinni stundum innan handar í þessum ferðum og fylgist vel með í baksýnisspeglinum hvort farmurinn sé ekki örugglega á réttum stað.Jenný er hörkukona, með henni á myndinni er sonur hennar Sigurjón Gunnar.