Framsýn hefur undanfarið staðið fyrir kynningarfundum á nýgerðum kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og SGS/LÍV. Í gær var haldinn félagsfundur á Húsavík auk vinnustaðafundar hjá Laugafiski í Reykjadal. Síðar dag verða síðan tveir félagsfundir, annars vegar á Raufarhöfn og hins vegar á Þórshöfn. Rafræn atkvæðagreiðsla um samninginn hefst síðar í þessari viku.
Fundurinn á Húsavík í gær var góður. Hörð gagnrýni kom á samninginn er varðar breytingar á viðmiðunarkaupi unglinga sem fer úr 18 ára aldri upp í 20 ára aldur. Ungt fólk var áberandi á fundinum og spurðu formann Framsýnar að því, af hverju samninganefnd SGS hefði gefið þetta eftir. Fundarmenn gengu svo langt að tala um mannréttindabrot á ungu fólki. Þau atriði sem voru sérstaklega gagnrýnt voru breytingar á unglingakaupinu og lágmarkstekjutryggingin sem verður kr. 300 þúsund undir lok samningstímann og drekkir kauptaxta Starfsgreinasambandsins sem menn töldu afar óeðlilegt. Formaður Framsýnar sem kynnti samninginn svaraði fyrirspurnum fundarmanna, sagðist hafa einn manna greitt atkvæði gegn þessum breytingum á unglingakaupinu enda talið þau ekki koma til greina. Eftir kynningarfundina sem þegar hafa verið haldnir á félagssvæði Framsýnar er ljóst að kjarasamningurinn fer misvel í félagsmenn.
Harðar umræður urðu á félagsfundi Framsýnar í gær, sérstök gagnrýni kom á lágmarkstekjutrygginguna og breytingar sem gerðar voru á viðmiðum varðandi á ungliðakaupið.