Dæmi eru um að Skrifstofu stéttarfélaganna hafi borist ábendingar frá starfsmönnum í ferðaþjónustu um að þeir séu látnir greiða að hluta fyrir fæði á vinnutíma. Rétt er að taka fram að slíkt er ólöglegt samkvæmt kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og Framsýnar.
Í grein 4.5.1. er kveðið á um að vinnuveitandi leggi starfsfólki til fæði á vinnutíma því að kostnaðarlausu.
Þá hafa einnig borist fyrirspurnir varðandi reglur um vinnufatnað. Starfsfólk skal ávallt vera hreint og snyrtilegt til fara. Sé þess óskað að starfsfólk klæðist sérstökum vinnufatnaði, ákveðnum lit eða gerð fatnaðar, skal vinnuveitandi leggja slíkan fatnað til eftir þörfum, starfsfólki að kostnaðarlausu. Skal hann vera eign vinnuveitenda og eingöngu notaður í vinnutíma. Þar sem þess gerist þörf skal vinnuveitandi leggja starfsmönnum til sloppa, hlíðfarsvuntur og hanska eftir þörfum. Vinnuveitandi skal sjá um viðhald og hreinsun þess vinnufatnaðar, sem hann leggur til og er hans eign.
Eitthvað er um að atvinnurekendur virði ekki kjarasamninga er varðar vinnufatnað starfsmanna og það að þeim ber að leggja starfsfólki til fæði á vinnutíma.