Á aðalfundi Framsýnar var samþykkt að heimila stjórn og trúnaðarmannaráði á forsendum 3. greinar reglugerðar Vinnudeilusjóðs Framsýnar að færa allt að kr. 100.000.000 úr félagssjóði í vinnudeilusjóð verði þörf á því í yfirstandandi kjaradeilum við Samtök atvinnulífsins og aðra þá samningsaðila sem Framsýn er með kjarasamninga við og lausir eru árið 2015.
Framsýn hefur þegar ákveðið að greiða félagsmönnum verkfallsbætur frá og með 6. júní þegar allsherjarverkfallið hefst. Miðað er við að félagsmenn taki á sig verkfallsdagana fram að því sem gera 4,5 daga. Greiddar verða allt að kr. 8.000 á dag alla virka daga og 500 krónur með barni per dag. Greiðslurnar til félagsmanna taka mið af greiddu félagsgjaldi. Hægt verður að sækja um bæturnar á sérstöku eyðublaði sem verður aðgengilegt á heimasíðu félagsins. Væntanlega mun hver dagur í verkfalli kosta félagið um 5 milljónir og mánuðurinn 108 milljónir.
Varðandi verkfallsbæturnar, þá eru aðildarfélögin 16 innan Starfsgreinasambandsins með ólíkar reglur varðandi hámark greiðslna úr vinnudeilusjóðum félaganna þar sem ekki er um samræmdar reglur að ræða milli sjóðanna. Eftir því sem best er vitað er Framsýn með næst hæstu greiðslurnar til félagsmanna úr vinnudeilusjóði aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins, það er af þessum 16 félögum.
Fyrir eru 160 milljónir í Vinnudeilusjóði Framsýnar. Aðalfundur félagsins hefur heimilað stjórn og trúnaðarmannaráði að styrkja vinnudeilusjóðinn um allt að 100 milljónir til að mæta hugsanlegum átökum á vinnumarkaði og löngum verkföllum.