Húsavík í dag – allt að gerast

Flest bendir til þess að framkvæmdir hefjist fyrir fullt á Bakka við Húsavík í sumar við uppbyggingu á kísilmálmverksmiðju. Það er margt í loftinu sem staðfestir að framundan séu uppgangstímar á Húsavík. Einn af fjölmörgum blaðamönnum heimasíðu stéttarfélaganna fór í vetfangsferð í morgun og kannaði málið með því að taka nokkrar myndir. Komið með í bíltúrinn.
Í gær var unnið að því að losa vinnubúðir úr skipinu BBC Marmara í Húsavíkurhöfn. Um er að ræða 93 húseiningar sem notaðar verða sem vinnubúðir fyrir starfsmenn LNS Sögu sem sér að mestu um framkvæmdirnar við uppbygginguna á Þeistareykjum fyrir Landsvirkjun.

Töluvert verk er að ferja vinnubúðirnar upp á Þeistareyki og hafa sex stórir flutningabílar verið notaðir við verkið. Vel hefur gengið að ferja búðirnar á áfangastað.

Skip koma og fara með farma er tengjast framkvæmdum á Þeistareykjum. Þetta skip fór frá Húsavík í morgun eftir að hafa losað vinnubúðir sem verið er að flytja á Þeistareyki.

Unnið við vegagerð í Bakka  en þar mun kísilmálmverksmiðja rísa á vegum PCC gangi áætlarnir fyrirtækisins eftir. Það mun skýrast á allra næstu dögum.Byrjað er að byggja nýja steypustöð í Haukamýri á vegum Steinsteypis. Mikil uppgangur hefur verið hjá fyrirtækinu enda stefnir í að mikið verði steypt á stór Húsavíkursvæðinu á næstu árum.

Á næstu dögum verður hafist handa við að grafa skurð fyrir lögnum frá Húsavík út að athafnasvæðinu á Bakka. Þessi vél var við afleggjaran upp á Húsavíkurfjall í morgun. Spurning hvort hún verður notuð í verkið?

Já það er uppgangur á Húsavík, Fosshótelkeðjan  er að byggja stóra viðbyggingu við hótelið á Húsavík enda staðurinn paradís ferðamanna.

Húsavíkurrétt í Bakka þarf að víkja fyrir framkvæmdunum. Ný rétt verður byggð í sumar í Tröllakoti. Eins og sjá má snerta framkvæmdirnar í Bakka marga s.s. fjáregendur á Húsavík.

Hvað er betra en að hvíla sig vel fyrir væntanlegar framkvæmdir. Þetta er Húsavík í dag góðir hálsar.

Deila á