Miklar umræður urðu um kjaramál á fjölmennum aðalfundi Framsýnar þriðjudaginn 19. maí. Formaður hafði framsögu um málið. Hann fór yfir undirbúning félagsins við mótun kröfugerðar fyrir félagsmenn sem starfa eftir mismunandi kjarasamningum. Því næst fór hann yfir yfirstandandi viðræður Starfsgreinasambandsins og Landssambands ísl, verslunarmanna við Samtök atvinnulífsins. Formaður situr í samninganefnd SGS auk þess að leiða umræðu innan sambandsins um algjöra endurskoðun á kjarasamningi sambandsins og SA vegna starfsmanna í ferðaþjónustu. Hann fór jafnframt yfir verkfallsboðunina og niðurstöðuna úr atkvæðagreiðslunni um boðun verkfalls. Félagsmenn Framsýnar sem starfa eftir kjarasamningi SGS og SA og kjarasamningi LÍV og SA samþykktu verkfallsboðunina með yfir 90% atkvæða. Formaður sagði niðurstöðurnar glæsilegar, mikil samstaða væri innan félagsins að láta Samtök atvinnulífsins ekki bjóða sér hvað sem er. Formaður fór einnig yfir ástæður þess að verkfalli sem vera átti í dag og á morgun á vegum SGS var frestað til 28. og 29. maí. Allsherjarverkfallinu sem vera átti 26. maí var einnig frestað til 6. júní. Hann sagði mikinn áróður vera í gangi af hálfu Samtaka atvinnulífsins gegn hækkun lægstu launa. Þeir hefðu t.d. gert alvarlegar athugasemdir við kjarasamninga sem Framsýn hefur gert á heimavelli við á þriðja tug fyrirtækja. Reyndar hefði forseti ASÍ einnig gert athugasemdir við kjarasamningana sem og fyrrverandi varaforseti ASÍ , Signý Jóhannesdóttir sem sagt hefði sig frá samstarfi þeirra 16 stéttarfélaga sem hefðu fram að þessu staðið saman í kjaraviðræðum við SA. Formaður sagði þennan málflutning sorglegan og þeim ekki boðlegur. Menn væru hins vegar vanir þessum málflutningi úr þessari átt. Hins vegar væri ánægjulegt hvað félaginu hefði tekist að semja við mörg fyrirtæki á svæðinu um 300 þúsund króna lágmarkslaun innan þriggja ára með 35.000 króna upphafshækkun.
Eftir framsögu formanns gaf fundarstjóri orðið frjálst. Miklar og góðar umræður urðu um kjaramál, áróður Samtaka atvinnulífsins og útspil forseta ASÍ sem menn töldu honum vera til skammar sem og yfirlýsingar Signýjar Jóhannesdóttur fyrrverandi varaforseta ASÍ. Fundarmenn sögðust ekki átta sig á því, í hvaða liði þau væru.
Eftir miklar og góðar umræður um kjaramál var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða.
ÁLYKTUN:
„Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 19. maí 2015 lýsir yfir fullri ábyrgð á hendur Samtökum atvinnulífsins nú þegar stefnir í allsherjarverkfall aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands 6. júní. Það er að loknu tveggja daga verkfalli sem boðað hefur verið til 28. og 29. maí.
Það er með ólíkindum að Samtök atvinnulífsins vilji viðhalda fátækt í landinu með kauptöxtum sem eru langt fyrir neðan viðurkennd opinber framfærsluviðmið. Samtökin hafa gengið afar langt í áróðri gegn hækkun lægstu launa upp í kr. 300.000 innan þriggja ára og fullyrða að slík hækkun muni valda óðaverðbólgu og efnahagslegu hruni. Samtök atvinnulífsins hafa verið klöppuð upp af Seðlabankanum sem er sömu skoðunar og samtökin. Þessi málflutningur hefur ekki verið hávær þegar samið hefur verið við tekjuhæstu hópana um siðlausar launahækkanir í umboði Samtaka atvinnulífsins.
Aðalfundurinn hafnar alfarið þessum staðhæfingum Samtaka atvinnulífsins og hvetur þá til þess að stiga fram í nútímann með því að ganga að kröfum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sem Framsýn á aðild að. Þá krefst aðalfundurinn þess að verkalýðshreyfingin hniki ekki frá kröfunni um 300.000 króna lágmarkslaun og hafnar alfarið hugmyndum SA um % hækkanir sem auka alltaf ójöfnuðinn.
Það er algjör misskilningur að verðmætir lykilstarfsmenn leynist eingöngu í ákveðnum stjórnunarstöfum í atvinnulífinu og það kalli sjálfkrafa á ofurlaun og kaupaukagreiðslur til þessara manna. Að mati aðalfundarins eru verðmætustu starfsmennirnir þeir sem snúa hjólum atvinnulífsins alla daga ársins. Þessir starfsmenn hafa ekki verið metnir að verðleikum og skrapa botninn þegar kemur að launakjörum í þessu landi. Þeir gera líka tilkall til þess að verða metnir að verðleikum.