Sambandslaus forseti – númerið 4646600

En á ný skýtur forseti Alþýðusambands Íslands föstum skotum að þeim sem eru talsmenn þess að hækka lægstu launin í landinu, þannig að þau taki mið af viðurkenndum framfærsluviðmiðum sem eru rúmlega 300.000 krónur á mánuði. Það hlýtur að koma að því að Samtök atvinnulífsins uppgötvi hvað forsetinn er góður bandamaður enda skoðanabróðir elítunnar sem öllu ræður hjá Samtökum atvinnulífsins og haldið hefur uppi áróðri gegn hækkun lægstu launa. Hver man ekki fyrir nokkrum árum þegar forsetinn bauð þeim aðildarfélögum sem væru honum ekki sammála að yfirgefa Alþýðusambandið? Hver mann ekki eftir því þegar hann hraunaði yfir formann Framsýnar í bréfi til formanna aðildarfélaga Alþýðusambandsins. Formaður Framsýnar hafði þá tjáð sig um mikilvægi þess að hækka lægstu launin, forsetinn gat ekki setið undir því og dældi út óhróðri um störf formanns Framsýnar og það um hvítasunnu hér á árum áður. Hver mann ekki eftir því þegar forsetinn ætlaði að keyra í gegn síðustu kjarasamninga sem voru undirritaðir í desember 2014? Hann sagði örfáa forystumenn eða um 5% félagsmanna Alþýðusambandsins vera á móti samningnum og var þá að vitna í stærð félaganna sem stóðu við bakið á sínum formönnum. Að sjálfsögðu varð hann að éta þetta allt ofan í sig enda 2,8% launahækkun ekki boðleg verkafólki sem hlustuðu á leiðtoga 5 prósentanna og kolfelldu samningana víðast var. Já, blessaður forsetinn er ansi oft utangátta og ekki í takt við hjartslátt verkafólks í landinu enda óvinsælasti forsetinn sem gengt hefur embættinu frá stofnun sambandsins á fyrri hluta síðustu aldar.

Rétt er að leiðrétta nokkur atriði hjá forsetanum vegna viðtals í dv.is síðasta föstudag undir fyrirsögninni: Gylfi gagnrýnir Framsýn „Ég hef varað við þessari þróun“

• Þó nokkur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa gengið frá kjarasamningum við fyrirtæki utan SA. Af fréttinni að dæma er það bara Framsýn. Forsetinn á að vita betur eða hugsanlega vill hann ekki vita betur. Tvö stéttarfélög eru ávallt í skotlínunni hjá honum, Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness.

• Sem betur fer er samningsumboð Framsýnar ekki hjá Gylfa Arnbjörnssyni því þá væri slæm staða verkafólks verri. Umboðið er hjá félagsmönnum Framsýnar sem veitt hafa aðildarsamböndum félagsins umboð til að gera kjarasamninga fyrir félagsmenn fyrir utan þá samninga sem félagið er með heima í héraði.

• Framsýn hefur verið að gera kjarasamninga við fyrirtæki á félagssvæðinu, ekki fyrirtækjasamninga eins og forsetinn heldur fram í viðtalinu.

• Framsýn hefur ekki bara samið um hækkun á kauptöxtum heldur einnig um sambærilegar hækkanir fyrir þá félagsmenn sem taka ekki laun eftir kauptöxtum. Fullyrðingar forsetans um að ekki hafi verið samið fyrir þá sem ekki taka laun eftir kauptöxtum eiga því ekki við rök að styðjast. „Ef ég skil þetta mál rétt er fyrst og fremst verið að kvitta upp á taxtakerfið..“ segir forsetinn og heldur áfram „Félagsmönnum okkar hjá þessum fyrirtækjum gagnast ekkert rosalega að það sé bara samið um breytingar á töxtum. Þeir eru ekkert á töxtum..“ Aumingja maðurinn, honum hefði verið nær að afla sér frekari upplýsinga áður en hann var mátaður í viðtalinu fyrir að fara með rangt mál. Það er góð regla að kynna sér málið áður en farið er í viðtal, það á forsetinn að vita.

• Forsetanum hugnast ekki eins og hann nefnir í viðtalinu að Framsýn semji heima um 300.000 króna lágmarkslaun. Það sé ekki vænlegt til árangurs. Áfram verður spurt að leikslokum. Tekst aðildarfélögum Alþýðusambandsins að semja við Samtök atvinnulífsins um 300.000 króna lágmarkslaun innan þriggja ára? Í flestum þeim samningum sem Framsýn hefur gert kemur lágmarkstekjutryggingin inn strax við undirskrift. Samningarnir 23 sem hafa verið undirritaðir gilda flestir frá 1. mars eða 1. apríl 2015.

• Forseti ASÍ hefði betur eitt einu símtali norður til Húsavíkur áður enn hann fór í viðtalið til að fræðast um stöðu mála. Þá hefðu ekki þurft að koma fyrir setningar í viðtalinu eins og „Ef ég skil þetta mál rétt..“

Að lokum, Framsýn stéttarfélag gerir alvarlegar athugasemdir við endalausar og tilhæfulausar ásakanir forseta Alþýðusambands Íslands í garð félagsins. Félags sem nýtur mikillar virðingar meðal félagsmanna samkvæmt opinberum skoðanakönnum og reyndar um land allt. Sú virðing er ekki síst til komin vegna þess að félagið kappkostar að vinna að hagsmunnum félagsmanna nótt sem nýtan dag. Forsetinn ætti að hafa þetta í huga, þá væri hans staða allt önnur en hún er í dag. Þá mætti hann einnig hafa í huga hvort ekki væri ástæða fyrir hann að hvetja aðildarfélög sambandsins til góðra verka í stað þess að rífa endalaust niður starfsemi þeirra, þeirra félaga sem hann virðist hafa á heilanum og talar endalaust niður. Hugsanlega er það hans mat að það skipti engu máli fyrir Alþýðusamband Íslands að hafa sterkar sjálfstæðar einingar stéttarfélaga innan sambandsins.

Deila á